Skessuhorn - 17.12.2014, Blaðsíða 72
72 MIÐVIKUDAGUR 17. DESEMBER 2014
Jólahátíðin er samofin fjölbreyttum
hefðum og siðum. Margar þeirra
eru fyrir löngu orðnar órjúfanleg-
ur hluti af jólahaldi landsmanna,
svo sem skötuát á Þorláksmessu,
hangikjötið, aftansöngur, jólabakst-
ur, möndlugrautur og svona mætti
lengi telja. Flest höfum við ákveðn-
ar hugmyndir um hvernig jólin
okkar eiga að vera og margir eiga
sér hefðir sem erfitt er að víkja frá.
Sumar af jólahefðum Íslendinga eru
tiltölulega nýjar af nálinni á meðan
margar hafa fylgt þjóðinni í tím-
ans rás. Skessuhorn fékk fullorðið
fólk í landshlutanum til að lýsa sín-
um bernskujólum, til að gefa okkur
innsýn inn í það hvernig jólahaldið
var á árum áður.
Eygló Guðmundsdóttir:
Annríki einkenndi
aðventuna
Eygló Guðmundsdóttir er fædd í
Reykjavík þann 13. apríl árið 1940.
Fyrstu ár ævinnar bjó hún í Kol-
viðarnesi í Eyjahreppi, þar til fjöl-
skylda hennar flutti að Dalsmynni
í sama hrepp þegar Eygló var átta
ára gömul. Hún er elst ellefu systk-
ina og það má því gera ráð fyrir að
mikið hafi gengið á yfir jólahátíð-
ina í Dalsmynni. „Aðventan heima
einkenndist af miklu annríki. Allt
var gert í höndum hvort sem það
var bakstur, skreytingar eða sauma-
skapur. Ekkert rafmagn var á bæn-
um á þessum árum,“ útskýrir Eygló.
Allir á bænum fengu ný föt sem
voru heimasaumuð. „Mamma var
með handsnúna saumavél sem hún
notaði svo að enginn færi í jólakött-
inn og við krakkarnir föndruðum
allan liðlangan daginn jólaskraut
á tréð og músastiga í húsið,“ rifjar
hún upp.
Tréð skreytt með lyngi
Eygló minnist þessara tíma með
hlýju en furðar sig samt á lauf-
abrauðsleysinu. „Báðar ömmur
mínar eru að norðan og þar tíðkað-
ist mjög að steikja laufabrauð fyr-
ir jólin. Þetta var aldrei gert heima
og virtist ekki hafa komist í hefð
hjá okkur. Föðuramma mín var úr
Húnavatnssýslu og móðuramma
mín úr Svarfaðardal en þar var mik-
il laufabrauðshefð. Ég fór nú ekki
að velta þessu fyrir mér fyrr en ég
var komin á fullorðins ár enda vissi
ég varla hvað laufabrauð var þegar
ég var barn.“ Þrátt fyrir að laufa-
brauð væri ekki steikt á heimilinu
var nóg að gera í eldhúsinu. „Mik-
ið var bakað á aðventunni. Aðallega
gyðingakökur og hálfmánar eins og
tíðkaðist í þá daga. Það var aldrei
skata á Þorláksmessu. Það þekktist
ekki. Ég smakkaði ekki skötu fyrr
en löngu seinna,“ segir Eygló. Hún
segir að jólatréð á heimilinu hafi
verið tré með áföstum örmum sem
víxluðust sitt á hvað svo að kert-
in myndu ekki kveikja í. „Þetta var
svo skreytt með lyngi og eini sem
faðir minn sótti úr náttúrunni og
svo jólaskrauti sem við krakkarnir
höfðum föndrað.“
Gengið í kringum
jólatréð
Á aðfangadag var alltaf sami mat-
urinn. Heitt hangikjöt með uppstúf
og kartöflum og í eftirrétt segist
Eygló hafa fengið dýrindis grjóna-
graut með rúsínum og rjóma. „All-
ir fengu tvo pakka og var þá algengt
að fá bækur og spil. Það var aldrei
spilað á aðfangadag né jóladag en
þá nýttum við tímann í lestur. Eft-
ir matinn var svo gengið í kringum
jólatréð og sungið. Þannig var hátt-
urinn á jóladag líka, því ekki mátti
spila þessa daga. Það var svo á ann-
an í jólum sem var spilað. Þá kom
fólk af nærliggjandi bæjum og þá
var oft kátt á hjalla. Það var nátt-
úrulega ekkert sjónvarp eða tölv-
ur eins og í dag og mjög takmark-
að útvarp,“ segir Eygló. „Á jóladag
færði mamma okkur heitt kakó og
kökur í rúmið og var það mjög ljúft
enda eini dagur ársins sem sá háttur
var hafður á,“ bætir hún við.
Brenna á
Dalsmynnisfjalli
Eygló á góðar og hlýjar minningar
af jólahaldi í Dalsmynni og er henni
eplalyktin minnisstæð. Á þeim tíma
fékk fjölskyldan einungis epli á jól-
um og lengi vel tengdi hún eplalykt
við jólahátíðina. „Alltaf var safnað í
brennu fyrir áramótin og ég man að
tvisvar sinnum höfðum við brenn-
una uppi á Dalsmynnisfjalli. Ég skil
ekki enn þann dag í dag hvernig við
fórum að því en þá þurftum við að
klöngrast með eldsmat upp bratta
hlíðina í hálku og klaka. En brenn-
an sjálf var mjög tilkomumikil á
áramótunum en þá komu mamma
og pabbi með okkur upp í fjall til að
kveikja í,“ segir Eygló að endingu.
tfk
Kristján Helgason:
Góðar minningar
frá aðventunni
Kristján Helgason er fæddur á Ak-
ureyri árið 1934 og er alinn upp á
Siglufirði og bjó þar fyrstu sext-
án ár sín. Kristján rifjaði upp sín
bernskujól fyrir fréttaritara Skessu-
horns í Ólafsvík.
Of snemmt að skreyta
í nóvember
„Ég á góðar minningar frá aðvent-
unni,“ segir Kristján. „En þó var að-
ventan ekki í hávegum höfð á þess-
um tíma sem ég var að alast upp.
Við lékum okkur í jólafríinu á skíð-
um og sleðum sem var kærkom-
ið frá skólanum,“ bætir hann við.
Kristján minnist þess að ekki var
byrjað að skreyta á bernskuheim-
ilinu fyrr en á Þorláksmessu og
heldur hann í þann sið. „Mér finnst
allt of snemmt að fara að skreyta
í nóvember eins og margir eru að
gera í dag. Jólatréð var ekki sett upp
fyrr en á aðfangadagsmorgun og
var skreytt með pappírsskrauti sem
líka var hengt í loftið. Við notuðum
kerti á jólatréð til að lýsa það upp.
Þau voru sett á með þar til gerðum
smellum og svo varð að sjálfsögðu
að passa vel upp á kertin.“
Skammtað
í kaupfélaginu
Aðspurður um jólafötin á sín-
um uppvaxtarárum segir hann að
mamma hans hafi saumað jólafötin
á börnin sín sem voru fjögur talsins.
„Það var engin fatabúð á Siglufirði
á þessum tíma.“ Um matarhefð-
ir segir Kristján að á Þorláksmessu
hafi verið skata á borðum. „Svo
var yfirleitt hangikjöt og lamba-
kjöt á boðstólunum. Mig rekur
minni til að epli og appelsínur höf-
um við ekki séð fyrr en eftir stríð.
Þá voru allar matvörur skammtað-
ar og fengu meðlimir kaupfélagsins
fimm kíló á meðlim á viku,“ rifjar
hann upp.
Spilað upp
á kaffibaunir
Kristján segir það hafa verið fasta
venju að taka í spil um jólahátíðina.
„Þá var mikið spilað „púkk“. Við
höfðum það þannig að hver spilari
fékk óbrenndar kaffibaunir og síð-
an fékk vinningshafinn allan pott-
inn. Það var nú oft mikið kapp og
fjör í kringum það spil,“ segir hann
og brosir að endurminningunni.
Það var svo um 1949 sem Krist-
ján kom fyrst til Ólafsvíkur. „Fað-
ir minn var hér með vélanámskeið
og ég flutti síðan hingað alkominn
árið 1955 þegar ég réði mig á ver-
tíð hingað.“
af
Agnes Sigurðardóttir:
Jólin komu með
eplunum
Agnes Sigurðardóttir er fædd á
Akranesi 1931. Hún er dóttir Sig-
urðar Hallbjörnssonar útgerðar-
manns og Ólafar Guðmundsdótt-
ur sem fluttust á Skagann frá Suð-
ureyri við Súgandafjörð 1925. „Ég
er ein af tólf systkinum. Sex þeirra
voru fædd á Suðureyri en við sex
yngri fæddumst hér á Akranesi,“
segir Agnes. Foreldrar hennar voru
með búskap í Tungu þar sem þau
bjuggu lengi vel. Mikið annríki var
á þessu stóra heimili. „Pabbi var að
vinna úti og mamma sá um okkur
börnin. Við vorum líka með hænur
og beljur.“
Léku sér úti
á aðventunni
Aðspurð segist Agnes eiga góð-
ar minningar af aðventunni og frá
jólahátíðinni. Í aðdraganda jólanna
var alltaf keyptur eplakassi inn á
heimilið og minnist Agnes þess að
hafa komist í jólaskap um það leyti.
„Með honum barst eplalyktin um
allt hús. Jólin komu með eplunum
og lyktinni,“ rifjar hún upp. Hún
segir að undirbúningur jólanna hafi
allur verið í höndum móður henn-
ar, enda hafi börnin verið upptekin
við leik. „Á aðventunni vorum við
systkinin bara úti að leika okkur.
Það var mun meiri snjór í þá daga
en núna, finnst manni. Ég man eft-
ir því að við fórum oft upp á bíl-
skúrinn hjá HB og renndum okk-
ur niður skaflinn.“ Agnes átti tvær
systur og níu bræður. Hún segist
hafa verið mikil strákastelpa þegar
hún var barn. „Ég vildi helst leika
með strákunum en þeir vildu ekki
sjá mig. Ég átti eiginlega ekki sam-
leið með systrum mínum sem barn,
enda voru þær svolítið eldri en ég.
Það breyttist svo með árunum,“
segir Agnes.
Buslugangur
í jólabaðinu
Í Tungu var vel passað upp á að
enginn færi í jólaköttinn. Ólöf,
móðir Agnesar, saumaði ný jólaföt
á systkinin. „Ég fékk alltaf nýjan
jólakjól. Mamma saumaði öll föt-
in en síðustu árin fékk hún hjálp.
Svo fengum við öll gjafir, svo sem
dúkkur og bíla. Hjónin í Níelshúsi
gáfu okkur líka alltaf lítinn kassa
með gotti.“ Agnes minnist einnig
Bernskujólin rifjuð upp
Minningar um jólin og aðdraganda jólanna á árum áður
Eygló Guðmundsdóttir föndraði mikið fyrir jólin. Ljósm. tfk.
Kristján Helgason minnist bernskujólanna með hlýju. Ljósm. af.
Agnes Sigurðardóttir lék sér úti á aðventunni. Ljósm. grþ.