Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Blaðsíða 28
Gabriel García Marquez:
Fegursta sjórekið lík í heimi
(1968)
Börnin sem fyrst sáu dökka og þögla þústina sem kom af hafi og
færðist nær, ímynduðu sér að þar færi óvinaskip. Svo sáu þau að á
þústina vantaði fána og reiða og héldu þá að þetta væri hvalur. En
þegar hana hafði rekið upp í fjöru röktu þau utan af henni þang-
flækjur, marglittuþræði og leifar af fisktorfum og skipbrotum og þá
fyrst sáu þau að þetta var sjórekið lík.
Þau léku sér að því allan eftirmiðdaginn, grófu það í sandinn og
mokuðu síðan ofan af því aftur, þangað til einhver sá þau af tilviljun
og lét boð út ganga til þorpsbúa. Mennirnir sem báru líkið í hús eitt
nálægt ströndinni veittu því athygli að það var þyngra en nokkurt
annað lík sem þeir þekktu, næstum jafnþungt og hestur, og þeir
sögðu sín á milli að kannski hefði það flotið of lengi og vatn komist
inn í beinin. Þegar þeir lögðu það frá sér á gólfið sáu þeir að þetta
var lík af mun stærri manni en nokkur hafði áður þekkt, því það
komst varla fyrir í húsinu, en þeir hugsuðu með sér að ef til vill væri
það eðli sumra sjórekinna líka að halda áfram að stækka eftir
dauðann. Það var af því sjávarlykt, og aðeins útlínurnar gáfu til
kynna að þetta væru jarðneskar leifar mannveru, því hörundið var
þakið brynju úr hringmunna og leðju.
Þeir þurftu ekki að hreinsa framanúr líkinu til að komast að raun
um að þetta var ókunnugt lík. I þorpinu voru ekki nema tuttugu
hús, byggð úr kassafjölum og umkringd blómalausum steinportum
og stóðu dreift, yst úti á eyðilegum höfða. Landrými var svo naumt,
að mæðurnar lifðu í stöðugum ótta um að vindurinn feykti börnun-
um burt, og við þá fáu sem dóu frá þeim í tímans rás var ekki annað
að gera en fleygja þeim fram af klettunum. En hafið var kyrrt og
örlátt og allir karlmennirnir komust fyrir í sjö bátum. Því var það,
að þegar þeir fundu sjórekna líkið þurftu þeir ekki annað en horfa
hver á annan til að ganga úr skugga um að engan vantaði.
146