Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Blaðsíða 53
„I túninu heima “
hvíslað að honum „utanúr alheimi þessum orðum: þegar þú verður
sautján ára muntu deya“.
„Sem betur fór voru tíu ár til stefnu.“ Sjömeistarasagan hefst vorið
1918. Halldór er „semsé orðinn sextán vetra og lítill tími til stefnu“:
„Ekki var ég fyr kominn heim af gagnfræðaprófi þetta vor en ég tók
til óspiltra mála að skrifa þá bók sem á reið að eftir mig lægi þegar
liði upp af mér, vonandi í leiftri af himni, næsta vor.“ (7—8) Það kann
að virðast í meira lagi dramatísk sviðsetning. En um þetta kemst
höfundurinn nú svo að orði: „Hve sterkur hreyfill vitrun mín forn
um bráðan dauða hefur verið í þessari æðisgengnu bókmentastarf-
semi skal ósagt látið. / . . . / Þó efast ég aldrei um þann þátt sem
vitrunin átti í að ýta mér á stað.“ (72—73)
Þennan vetur sem Halldór sat í fjórða bekk Menntaskólans,
skrópaði hann óspart úr kennslustundum, þar sem hann var önnum
kafinn að ganga frá testamenti sínu. Um þetta leyti voru menn
byrjaðir að taka eftir Halldóri frá Laxnesi, enda hefur sjálfsagt
kvisast í bænum um tilvonandi skáldsögu hans. Einu sinni þegar
hann gengur út úr veitingahúsinu Uppsalir síðla kvölds verður
honum samferða Olafur Friðriksson Möller, „sá með hafurskeggið,
og komið hafði með bolsévisma til Islands". Olafur hafði aldrei yrt á
hann fyrr, en nú segir hann við hann upp úr þurru: „Með leyfi um
hvað er sú skáldsaga?" Halldór lýsir gangi sögunnar í fáum dráttum.
„Takk, sagði Olafur Friðriksson. Semsé frá Rousseau til Tolstoj.
Gat verið verra.“ Þetta er reyndar laggóð lýsing á eðli þessarar bókar.
En þegar Olafur er kominn „einsog tíu skref burtu“, snýr hann sér á
hæli og kallar: „Af hverju ekki Voltaire úrþví þér hafið Rousseau?
Og af hverju ekki Lenín og Trotskí?/ . . ./ Annars eigið þér á hættu
að verða á eftir tímanum." (75-76) Nú, eftir öll þessi ár, finnst manni
slík áskorun hafa verið nokkurskonar spádómur. En spekingar
einsog Voltaire og Marx áttu eftir að setja um langt skeið svip sinn á
skoðanir og rit Laxness frekar en Rousseau og Tolstoj.
Bókin um eigin Sjömeistarasögu Halldórs endar á þann hátt sem
festist í minni lesandans, um leið harmþrunginn veruleiki og dæmi
um handbrögð skálds. Seint eitt sumarkvöld, þegar hann kemur
heim til sín í Reykjavík, er nágranni úr Mosfellssveit og mikill vinur
föður hans kominn í bæinn og réttir honum nú bréf frá móður hans,
dagsett formlega „Laxnesi, 19. júní 1919“:
171