Tímarit Máls og menningar - 01.05.1982, Page 50
Tímarit Máls og menningar
dökkbláum sokkum, stuttbuxum“ og „með hvítan kraga útá axlir“
(211) hefur Laxness einsog kunnugt er síðarmeir sýnt mikinn áhuga
á myndlist og skrifað talsvert um hana. En þá hefur að vísu ekki
verið um kubba, klömbruhnaus og hellenskar gyðjur úr gifsi að
ræða, heldur mest um nútíma málaralist.
En umfram allt laukst heimur bókmenntanna upp fyrir honum. A
einhvern hátt komst hann yfir ósköpin öll af bókum, fyrst á heimili
sínu og gegnum lestrarfélag þar í sveit. Og hann var alæta á þessu
sviði, las allt sem til féll: Islendingasögur, þjóðsögur, Þúsund og
eina nótt, þýdda erlenda reyfara, en einnig bækur eftir til dæmis
Björnson og Ibsen á frummálinu. Af söngbókum á heimilinu lærði
hann danskar, norskar og þýskar vísur. Tilvitnanir hans sýna hvað
þetta hefur orðið honum minnisstætt.
Um leið og lesandinn fær hér forvitnilega mynd af bókmennta-
legu sjálfsuppeldi Halldórs er oft bætt við skemmtilegum athuga-
semdum um lestrarefnið. Þannig segist hann aldrei hafa
skilið symbólík né þesskonar tossakver sem segir A=B. Einkanlega
var mér uppsigað við bækur ef ég fann á lesmálinu að í staðinn fyrir
að segja mér sögu átti að kenna mér eitthvað fallegt og gott. Til
dæmis byrjar saga á því að segja frá ormi sem varð að manni, og
reyndar er hrífandi hugmynd; en þegar komið var dálítið frammí
lesmálið kom uppúr dúrnum að þetta var saga til að kenna manni að
þekkja á klukku og endaði á margföldunartöflunni. Slíkt er svik og
prettir í skáldsögu. (T 132)
Svipuð eru viðbrögð hans við ævintýrum H. C. Andresens:
Mart er í ævintýrum Andersens eintómur fjasgefinn áróður fyrir
almennri meðalhegðun, dæmisögutónninn minnir á jarm í sauðfé;
skólakennaramærð í sögulíki snart mig ævinlega einsog ég hefði
gruflað í eitthvert béað klístur, samanber ævintýrið um orminn,
þegar átti að narra lesandann til að læra á klukku. (133)
Ef hér er rétt lýst afstöðu drengsins, þá má segja að sá sem semur
þessa æskusögu sé honum sammála. Neikvæð skoðun hans á öllum
áróðri í söguformi birtist til dæmis í eftirfarandi yfirlýsingu; sem
oftar á þessum blöðum ber höfundurinn saman fortíð og nútíð:
168