Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Blaðsíða 63
Gagnrýni á gagnrýnina
einvörðungu með því að beita óskhyggju og trúarþörf, kirkjulegri eða
pólitískri.
I alvarlegum umræðum um gagnrýni er næstum óhugsandi að ganga fram
hjá hinum frjósömu og jafnvel skapandi gagnrýnendum, svo sem Sklovskí,
Eliot. I. A. Richards, Freye og Antoni Ehrenzweig, að Vladimír Propp
ótöldum, ef um bókmenntagagnrýni er fjallað. En hér fara ekki fram
alvarlegar umræður, heldur lauslegt spjall af minni hálfu og vitna ég hvergi í
gagnrýnendur.
Sá er siður gagnrýnenda, eins þeirra sem hátt eru skrifaðir, að eyða tíma,
viti og orku í að hrekja eða staðfesta orð annarra gagnrýnenda. Við slíka
umfjöllun verður til það sem líklega væri hægt að nefna lokaða hringrás.
Gagnrýnin verður fyrir gagnrýnendur, oft fyrir þá sem hafa troðið sér með
frekju og fáfræði en lærdómi inn í háskólana. Almenn fáfræði, en sérhæfð
þekking, virðist vera skilyrði fyrir því að maður fái að kenna í þeim
stofnunum, slík er hnignun háskólanna.
Með því ég er enginn gagnrýnandi í fræðilegri merkingu smeygi ég mér
fram hjá bókmenntafræðingunum, með sæmilegri samvisku, og tala frá
sjónarhóli rithöfundar. En rithöfundar hafa tíðum lítið dálæti á gagnrýnend-
um, öðrum en sjálfum sér. Sérhver rithöfundur er með bókmenntaverki
sínu gagnrýnandi. Mun ég fjalla um hvort tveggja síðar í erindinu og ræða
um hver ástæðan er fyrir andúð rithöfundarins á bókmenntagagnrýnand-
anum.
Fimmtán mínútur eiga að nægja til þess að fyrirlesari fari á hundavaði yfir
jafn víðtækt og athyglisvert umræðuefni og gagnrýnin er séð frá bæjardyr-
um hins skapandi listamanns. En á sköpuðum verkum byggist listagagnrýn-
in. Og að öllu eðlilegu ættu verk listamannanna að byggjast að einhverju
leyti á hugsun gagnrýnandans. Slíkt er afar sjaldgæft, nema gagnrýnandinn
stundi þá list að semja kenningar sem varða listirnar og framtíð þeirra.
Slíkur gagnrýnandi er skapandi gagnrýnandi.
Að gagnrýna er það að láta í ljós skoðun eftir að rýnt hefur verið að
einhverju gagni í verkið. Gagnrýnin hefur sín uppeldisáhrif, því að gagnrýn-
andinn hefur upp raust sína eftir að hann hefur skoðað verkið niður í
kjölinn. Hið leynda eðli verksins, sem liggur djúpt og flestum hulið, er
dregið af honum án miskunnar fram í dagsljósið. Innsti kjarninn er í augsýn
allra. Slíkt þolir listamaðurinn ekki, eins og frá verður sagt síðar.
Gagnrýni er annað en ritdómur eða umsögn um bækur. Þetta er þó notað
jöfnum höndum í hinu alþýðlega reiðuleysi sem ríkir hér, jafnt í andlegum
sem veraldlegum efnum. Oft er því sagt að gagnrýnandinn skrifi ritdóm, að
ritdómarinn birti umsögn. Og gagnrýni getur verið allt í senn: umsögn,
ritdómur og gagnrýni. Oftast er þó starf þess sem skrifar um Iistir einungis
557