Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Blaðsíða 22
Tímarit Máls og menningar
ísfugl, „því hann verpir á vorin um það leyti sem sjöstjörnur renna
upp og farmenn leggja aftur í sjóferðir“.
Meðal sagna sem gengu af Sjöstjörnum var ein á þá leið, „að
Oríon af Böótalandi, veiðigarpur mikill og tröll að vexti, hafi sótt
eftir þeim í fimm mánuði samfleytt, og hafi þeim fyrir grátbeiðni
þeirra fyrst verið brugðið í dúfna líki, en síðan gerðar að stjörnum“.
Skýring þessarar goðsagnar kvað vera sú, „að á himninum gengur
stjörnumarkið Oríon mjög svo nærri Sjöstjörnunum um fimm
mánaða tíma“. Það sagnatilbrigði þekktist einnig, að gyðjunum væri
brugðið í stjörnur vegna þess hve þær hörmuðu hlutskipti föður
síns. Og í sumum sögum lifði, að ekki aðeins þær systur, heldur og
móðir þeirra yrði á vegi Oríons, sem veitti þeim eftirför um
skóglendin, unz Seifur breytti þeim öllum saman í stjörnur, líka
Síríosi, veiðihundi Oríons.
Það var haft fyrir satt að stjörnurnar sjö væru dúfur — eins og fyrr
getur — sem færðu Seifi ódáinsfæðuna, ambrósíu, „en þegar þær
fljúgi fram hjá Sogdröngum, þá týnist ætíð einhver þeirra, en Sevs
sendir jafnan aðra í skarðið, svo að ekki vanti í töluna“. Þykir
vafalaust að þessi saga lúti að því, „að ein af Sjöstjörnunum er
ósýnileg". Hér er annaðhvort átt við Elektru, sem harmar fall Tróju,
eða Merópe sem ein hinna „minni háttar gyðja“ giftist dauðlegum
manni, en hinar allar ódauðlegum guðum, og þess vegna dyljist hún
sökum blygðunar. Gyðjurnar (stjörnurnar) sjö áttu að vera dætur
Atlasar og Plejóne. Þær hétu, að frátöldum Elektru og Merópe:
Alcýóne (Halcýóne), Sterópe, Kelenó, Maja og Taygete.
III
Það er í hlutarins eðli að Grímur Thomsen, lærður í grískum
fornfræðum, hefur kunnað goðsagnirnar sem lauslega var minnt á
hér að framan. En hann nýtti sér þær ekki þegar hann orti, gamall
maður, kvæði um Sjöstjörnuna. Þó var honum tamt að segja í
bundnu máli sögur frá liðinni tíð, og stundum án þess hann gæddi
þær nýrri, táknlegri vídd, aðeins endurtók sögurnar, rímaðar. Ei að
síður eru mörg áhrifamikil dæmi hins, að gamlar sögur öðluðust
nýjar skírskotanir í meðförum hans. En goðsagnirnar grísku hag-
nýtti hann ekki, þegar hann orti kvæði sitt um Sjöstjörnuna. Þær
voru rifjaðar hér upp í því skyni að menn sæju, hver sú stjarnfræði
516