Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Blaðsíða 73
íslensk myndlistargagnrýni
einhverju öðru og sinna gagnrýni á hlaupum. Rétt er að geta þess að þetta er
ekki séríslenskt vandamál. Síðast þegar ég vissi var aðeins einn mynd-
listargagnrýnandi á fullum launum við norskt blað.
Það gefur auga leið að þessi starfsskilyrði stuðla ekki að yfirvegun, íhygli
og vandaðri framsetningu efnis.
Fleira kemur til. Ekki er nokkur leið að horfa framhjá því að gott
myndverk er samansett úr ótal mörgum þáttum, tilfinningalegum,
heimspekilegum og þjóðfélagslegum, og umræða um alla þessa þætti er að
sjálfsögðu meir en við hæfi í myndlistargagnrýni. Meðvitund um þá hlýtur
að setja svip sinn á alla þá gagnrýni sem stendur undir nafni. Þá stöndum við
frammi fyrir þeirri staðreynd að við eigum ekki vitræna eða intellektúal
hefð sem verið hefur þess megnug að nálgast myndlistir frá þeim sjónvinkl-
um. Varla getur það verið tilviljun að meðan við eigum okkur tímarit eða
sérrit sem helguð eru fræðimennsku í sögu, málvísindum og bókmenntum,
höfum við aldrei eignast rit um listasögu eða listfræðileg vandamál. Ekki
væri of djúpt í árina tekið að segja að við ættum okkur and-vitræna, anti-
intellektúal, hefð í myndlistarumræðu á íslandi, samanber það moldviðri
sem þyrlað hefur verið upp í kringum Kjarvalsstaði á undanförnum árum.
Sérstaklega hafa myndlistarmenn sjálfir verið iðnir við að bera af sér
vitræna tjáningu, rannsóknarstarfsemi eða skírskotun til annarra þátta en
þeirra sem líta má á fletinum eða í forminu. Við tilraunir okkar gagnrýnenda
til rannsókna eða skilgreininga, fara íslenskir myndlistarmenn hjá sér eða
undan í flæmingi. Eitt er það í viðbót sem slævt hefur brodd íslenskrar
myndlistargagnrýni og það vandamál er síður en svo bundið við mynd-
listina eina. Hér á ég við hinn mannlega þátt, náin kynni, frændsemi og önnur
tengsl flestra þeirra sem starfa í íslensku menningarlífi. Alls staðar þar sem
myndlistargagnrýni er skrifuð, verða gagnrýnendur fyrir þrýstingi safna-
manna, galleríeigenda, listamanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta.
Og vitaskuld er ekki hægt að ætlast til þess að gagnrýnandinn einangri sig
alveg í starfi, slíkt mundi t. d. koma í veg fyrir skapandi samvinnu hans og
listamanna, dýpri skilning á verkum þeirra og þekkingu á mikilvægum
þáttum í sýningarstarfsemi.
En hinn persónulegi þrýstingur á íslenska myndlistargagnrýnendur er
líkast til erfiðari viðureignar en „prófessjónal“ þrýstingurinn í útlöndum,
vegna þess hve oft er erfitt að sjá við honum. Haldi íslenskur mynd-
listargagnrýnandi ekki vöku sinni, er eins víst að skrif hans snúist upp í
meinlaust, vinsamlegt rabb um allt sem fyrir augun ber. Við höfum heldur
ekki farið varhluta af slíkum myndlistarskrifum.
E. t. v. má skilja á ýmsu því sem ég hef hér kastað fram, að ég sé ekki
alveg sannfærður um gildi myndlistargagnrýni, að ég telji myndlistina
567