Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Blaðsíða 53
Ljón á Vesturgötunni
— Hvaða nöldur er þetta í þér Óskar, sögðu kallarnir, skyldi
drengnum ekki leyfast að fá sér drullu af kexáti.
— Pokann, sagði drengurinn.
Oskar rétti fram pokann með semíngi og hélt áfram að tauta um
ormaveitu í maganum og brunnar tennur.
Þegar drengurinn hafði náð taki á pokanum og fjarlægt sig frá
búðarborðinu sagði hann: Þú átt bara að afgreiða Óskar og halda
kjafti!
Kallarnir veltust um af hlátri.
Tóbakstaumur rann útúr öðru munnvikinu á Óskari. Loks gat
hann stunið upp: Það er aldrei trantur í kvikindinu.
Drengurinn setti niður sólgleraugun á húfuskyggninu, gekk
hnakkakertur útúr Stefaníubúð og skellti á eftir sér svo glerið í
hurðinni nötraði. Utá tröppunum þótti honum varlegra að sleppa
virðuleikanum og taka til fótanna.
Það er ekki sama hvernig farið er yfir grindverk. Það er listgrein að
fara yfir grindverk og kostar margra ára þjálfun að gera það rétt.
Maður svífur einsog vindurinn. Að lenda í Stefaníugarði einsog
enginn hafi verið að fara yfir neitt er listgrein.
Dúfurnar tóku á móti drengnum með háværu kurri þegar hann
opnaði dyrnar á Svartaskúrnum. Þær tróðust að döllunum og hann
gaf þeim vatn og bygg og tók síðan ísarann útúr búrinu og strauk
honum blíðlega og fuglinn nuddaði hausnum í lófa drengsins einsog
dáleiddur. En drengurinn var að flýta sér, stakk ísaranum aftur inní
búrið, tróð kexi í alla vasa, en faldi afgánginn í saghaugnum bakvið
dúfnabúrið. Hann steig aftur útí sólskinið með brúna Frónkexköku í
munninum, læsti skúrnum og tók loftleiðina yfir grindverkið með
stefnu á rakarastofu Lárusar Lárussonar.
„Lokað vegna óviðráðanlegra orsaka“, stóð á skiltinu á dyrum
rakarastofunnar.
Glugginn að húsabaki vissi útað garði þarsem óx hvönn í glæstum
breiðum og mannhæðarhár njóli sem sumir strákar reyktu, en ýmsir
átu hvönnina tilað verða brjálaðir. Ef maður át nógu mikið af hvönn
varð maður brjálaður og gat rifið í sundur járn. I hvanna- og
njólaskógi Lárusar rakara var hægt að skríða óséður lángar leiðir.
547