Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Blaðsíða 44
Tímarit Máls og menningar
undan honum, sem sótti sér kraft til klassískrar menningar Italíu þegar
honum ofbauð þröngsýni og afturhald heima fyrir. Þar af leiðandi gerir
Lukács meira úr áhuga Goethes á framfaramálum, pólitískri framsækni
hans, en efni standa til.
Goethe hefði einna helst viljað lifa eins konar sögulega málamiðlun í
Þýskalandi. Til þess sáu auðvitað ráðaöfl Þýskalands litlar ástæður, úr því
þau áttu ekki í höggi við neina fjöldahreyfingu fyrir lýðstjórn í frönskum
byltingaranda. En alþýðuuppreisnir og byltingar voru Goethe síst að skapi,
enda yfirleitt ekki mjög siðfáguð fyrirbæri. Goethe mun einhvern tímann
hafa látið svo ummælt að land hans ætti sér ekki sígildar bókmenntir, til þess
skorti allar forsendur, svo sem mikilsverða hefð og viðburðaríka sögu sem
skáldin gætu ausið af. Og hann bætti því við að hann óskaði sér ekki þeirra
stjórviðburða í þýskri sögu, sem gætu fætt af sér miklar bókmenntir.2,
Leo Löwenthal kemur betur auga á tvíræðnina í boðskap Námsáranna en
Lukács, en honum fer líkt og Brandesi, hann einblínir á hugmyndir
bókarinnar en fæst lítið um hvernig þær tengjast innri gerð eða strúktur
verksins. Jafnvel þótt þeir skoði báðir verkið frá sjónarhorni sögunnar, setja
þeir hugmyndir Goethes ekki alltaf í sögulegt samhengi (skoða t. d. ekki
hinn sterka aristókratíska þátt í mannskilningi hans). Löwenthal er öðru
fremur félagsfræðingur, eða öllu heldur félagsheimspekingur og það er
kannski helsti galli ritgerða hans frá þessum tíma að hann hefur ekki smíðað
sér neina kenningu um sérstöðu bókmennta umfram aðra texta (hvað gerir
ákveðin verk að bókmenntum?). Þær eru honum heimild um sálræna
úrvinnslu hugmyndafræði og söguþróunar. En hann gerir sér ekki alltaf
nógu vel grein fyrir því á hvern hátt höfundur — meðvitað eða ómeðvitað —
vinnur með lífsviðhorf sitt, hvernig hugmyndafræðin gerjast í honum þegar
hann skrifar skáldverk. Listrænt form þess, sem m. a. ræðst af bók-
menntalegri hefð og öðrum utanaðkomandi áhrifum, getur stangast á við þá
félagslegu hugmyndafræði sem höfundur sjálfur kann að vera gegnsýrður
af; ritun þess getur líka orðið honum tilefni sjálfskönnunar og -gagnrýni
(sbr. samanburð Arna Sigurjónssonar á Alþýðubókinni og Sölku Völku í
TMM 1 1982).
Lukács og Löwenthal taka lítt eða ekki mið af ýmsum þáttum í sögulegri
framvindu kapítalisma á tíma Goethes þegar þeir skrifa um gamla manninn.
Til dæmis má taka uppkomu og vöxt nýs lesendaskara úr lægri borgarastétt
og miðstéttum, og þar með þróun bókamarkaðar sem smám saman leysir af
hólmi gömlu furstahirðirnar sem eiga í kreppu sem liststofnanir. Þessu
tengist síðan sá frægi aðskilnaður „afþreyingar“ og „góðra“ bókmennta (því
má þó ekki gleyma að þegar Lukács og Löwenthal skrifa sínar ritgerðir um
Goethe eru bókmenntafræðingar almennt mjög sinnulausir um þessa
538