Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Blaðsíða 86
Tímarit Máls og menningar
Að vísu er Saga um glæp ekki nein venjuleg sería — nema þá að því leyti
til að unnt er að lesa hverja sögu fyrir sig sér til gagns og gamans, og þannig
séð sama í hvaða röð þær eru lesnar. I heilu lagi, sögu fyrir sögu er
flokknum ennfremur ætlað að rekja og sýna fram á þroskaferil sem sögu-
hetjurnar ganga í gegnum. Og þeirri þróun er lýst í samhengi víðtækrar
þjóðfélagslýsingar sem í öllum meginatriðum á að koma heim við raunveru-
lega þjóðfélagsþróun í Svíþjóð á tíma sagnanna, þann áratug eða svo sem
þær eru að ske og koma út. Og þar með við samfélagshætti sem við lesendur
sagnanna líka þekkjum. Að þessu leyti má að vísu vera að aðferðir sagnanna
hafi breyst á meðan Saga um glæp var í smíðum. En efni og stefnu hennar
ætti að mega rekja eftir gangi sakarefna, lýsingu sakafólksins sögu fyrir
sögu.
Tvær af þremur fyrstu sögunum, Morðið á ferjunni og Maðurinn á
svölunum nefnast þær í íslensku útgáfunni, fjalla um kynferðisglæpi, og í
þeim báðum er morðinginn sjúkur maður og lýst sem ósjálfráðum gerða
sinna; en þriðja morðið, ástríðuglæpur sem svo má kalla í Maðurinn sem
hvarf, verður nánast af slysalegri tilviljun. í þeirri sögu er samúð lesandans
að sögulokum öll með morðingjanum, vænsta dreng; en sá sem myrtur var
getur nánast sjálfum sér um kennt hvernig fór, enda síður en svo nein
eftirsjá í honum. Það réttlætir ekki dauða hans, öðru nær; en manndrápið í
sögunni er umfram allt ógæfa mannsins sem framdi það og leggur líf hans í
rúst.
Barnamorðinginn í Maðurinn á svölunum er alveg augljóslega sjúkur
maður og á hvergi heima nema á hæli; þar er hann um síðir einangraður og
þar með gerður óskaðlegur eins og líka að sínu leyti morðingjarnir í fyrstu
sögunum. Það gefur enginn manninum né sjúkdómi hans gaum fyrr en hann
brýst út eins og pest í samfélagi sögunnar. Upptök sjúkdómsins eru aftur á
móti látin óskýrð, ef til vill að endingu óskiljanleg í samhengi sögunnar.
Fyrri sögurnar tvær eru að því leyti til venjubundnar sakamálasögur að
þær fjalla báðar um einstakan glæp, morð og mannshvarf, sem við fyrstu
sýn virðast óskiljanlegir atburðir. Báðar hinar torráðnu gátur eru að sjálf-
sögðu leystar um síðir vegna yfirburða lögreglumannanna í sögunum,
þeirrar sérstöku starfshæfni sem umfram allt gerir Martin Beck og félaga
hans að hetjum í sögu. Og ráðning gátunnar geymir á meðal annars
skýringu á glæpnum, ástæðum morðingjans sem í báðum tilfellum eru
einkum sálfræðilegar og einstaklingsbundnar. Að þessu leyti til er breyting
orðin í þriðju sögunni, Maðurinn á svölunum, og vel má vera sú saga í
flokknum sem best tekst að framfylgja tilætlaðri raunsæisstefnu hans. Þar er
eiginlega engin gáta ráðin né drýgðar neinar dáðir. Þó svo Martin Beck og
þeir félagar komist af ráðsnilld sinni að því hver morðinginn er lánast þeim
580