Tímarit Máls og menningar - 01.11.1982, Blaðsíða 65
Gagnrýni á gagnrýnina
rýninni hnignar. Gætið að hvernig dagblöðin eru uppfull af miðstéttarlegu
spjalli, skrifuðu fyrir fólk sem virðist lifa í eilífu kaffihléi, þar sem vaðallinn
freyðir.
Þegar kreppa ríkir í hinum andlega heimi hættir mannsandanum til að sjá
lífið í einstökum þáttum þess, mannsandinn einhæfir sig. Þetta er áberandi í
heimspekiiðkun nútímans. Heimspekingar þykjast sjá alla eðlisþætti manns-
ins í kannski tungunni og notkun hennar, aðrir sjá allt lífið í hegðun
mannsins, aðrir í stjórnmálum, eða því flokksræði sem ríkir í heiminum í
stað lýðræðis. Heimspekin sér ekki lengur lífið í hinum stóru heildum, hún
sér ekki manninn frá öllum hliðum. Hin miklu kerfi eru liðin undir lok.
Sama er að segja um listaverkin. Reynt er að telja okkur trú um að maðurinn
sé orðinn svo yfirgripsmikill að enginn mannshugur komist yfir alhliða
þekkingu á honum, þess vegna beri að líta á hann frá einni hlið í senn og það
með vísindalegu hugarfari. En maðurinn er og verður lifandi höggmynd
sem hægt er að ganga í kringum og skoða í krók og kring.
Ætti ég mér ósk bæði ég gagnrýnandann að reyna að útskýra það hvernig
raunveruleikinn er spunninn úr hugarflugi og hugarflugið fléttað úr raun-
veruleikanum. Er fegurð verksins og listrænt handbragð sprottið úr þeim
ljótleika sem efniviðurinn er unninn úr, ljótleikanum, hinu mikla
viðfangsefni nútímalistarinnar sem birtist á sviðinu þegar slaknaði á tökum
hinna latínulærðu skólamanna á listunum og listamenn fóru að gefa gaum að
þjóðlegum frásögum, ævintýrum og furðusögum lýðsins? Hin klassíska
heiðríkja er þar hvergi. I sögum alþýðunnar er aðeins grimmd og hryllingur.
í stað heiðríkjunnar barst inn í listina þoka og dumbungur sálarinnar, hið
grugguga loft kenndanna. Ljótleikinn er jafnvel meira áberandi núna en í
miðaldalistinni, þegar þótti skylt að benda óvægið á ljótleika líkamans, svo
athygli mannsins drægist ekki frá fegurð guðs, og bar manninum að leiða
trúna inn í leynihólf sálarinnar, svo guð gæti dvalið þar í honum þrátt fyrir
ljóta umgerð líkamans. Hví er ýmislegt skylt með miðöldum og samtíman-
um, eða frá því kúbisminn reis upp gegn líkamanum og sýndi ljótleika hans
frá öllum hliðum í málverkinu?
Eitt fyrirbrigði er algengt í samtímalistinni: listaverkið er spunnið af
fingrum fram en í senn gagnrýnið á sjálft sig. Listaverkið snýst af heift gegn
eigin lífi. Sjálfseyðileggingarhvöt er ein af frumhvötum nútímalistarinnar. I
legi hennar liggja saman sköpun og dauði. Skáldsagan nálgast það að vera
ritgerð, í henni felst gagnrýni á hana sjálfa. Er þá nokkur þörf fyrir
gagnrýnendur ef listamennirnir gerast eigin gagnrýnendur um leið og þeir
skapa verk sín? Hættir gagnrýnin þá ekki að vera fylginautur listanna og kýs
sjálfstæða hegðun?
Fram á síðustu tíma hefur helsta hlutverk gagnrýnandans verið að
559