Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Blaðsíða 65
Afmteliskveðja til vinar
er nú haldin í Havana kvikmyndahátíð þar sem sýndar eru og verðlaunaðar
kvikmyndir frá Rómönsku Ameríku, annað hvert ár er haldin leiklistarhátíð
þar sem gefur að líta úrval þess besta sem leikhús landsins hafa upp á að
bjóða, auk erlendra gestasýninga. Bókmenntasamkeppni forlagsins Casa de
las Americas hefur verið fastur liður í menningarlífi Suður-Ameríku um
margra ára skeið. Kúbanski ballettinn hefur farið margar frægðarferðir um
heiminn, Teatro Estudio hefur einnig hleypt heimdraganum og m. a. sýnt
leikrit Garcia Lorca á Spáni við góðar undirtektir. Annar leikhópur, Teatro
Escambray, var væntanlegur í leikferð til Norðurlandanna síðast þegar ég
vissi. Kúbanskir tónlistarmenn eru stöðugt á ferðinni og syngja sig inn í
hjörtun jafnvel í löndum þar sem Kúba hefur lengi verið á svarta listanum,
einsog t. d. í Bandaríkjunum og Brasilíu. Þannig mætti lengi telja og sýna
fram á með rökum að Kúba hefur ekki lokast inni í menningarlegri einangr-
un, þrátt fyrir allt.
Ef ég ætti að benda á eitt atriði sem öðrum fremur einkennir kúbanska
listamenn okkar tíma segði ég líklega: þeir líta á byltinguna sem sitt eigið
verk. „Byltingin — það erum við.“ Þegar kúbanskir listamenn gagnrýna
þjóðfélagið eru þeir um leið að gagnrýna sjálfa sig á meðvitaðan hátt. Þetta
hugarfar er ekki bundið við listamenn eina. Bandaríski rithöfundurinn
Margaret Randall sem bjó á Kúbu í mörg ár sagði einhverntíma að ekkert
væri auðveldara en að finna út hverjir væru með eða á móti byltingunni:
hinir fyrrnefndu töluðu um þjóðfélagið í fyrstu persónu fleirtölu, hinir
síðarnefndu notuðu þriðju persónu fleirtölu. Við erum að byggja upp nýtt
þjóðfélag, við þurfum að höggva meiri sykurreyr til að afla gjaldeyris og
auka vöruúrvalið í búðunum okkar — setningar á borð við þessar heyrir
maður oftast, og þær raddir eru óneitanlega hjáróma sem segja að þeir séu að
gera eitthvað. Þetta er mergurinn málsins. Þar sem fólkið sjálft tekur þátt í
að breyta þjóðfélaginu sér í hag, þar sem það er með í ráðum og lítur á
þróunina sem sitt eigið verk — þar hefur byltingin níu líf að minnsta kosti
og þar er alltaf von, á hverju sem gengur.
295