Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Page 76
Tímarit Máls og menningar
Það sem öðru fremur einkennir kveðskap Smiths er ákaflega sterk hrynj-
andi. Má raunar segja að verk hans njóti sín ekki nema þau séu lesin upphátt
og innbyggt hljómfall þeirra komi í ljós. Sjálfur sagði Smith að þeir sem
hefðu haft mest áhrif á ljóðagerð sína í byrjun væru diskótekarinn U-Roy
og gosdrykkjasali nokkur á götuhorni í Trenchtown. Sá síðarnefndi hafi í
sífellu spunnið upp úr sér stórkostlegan rímaðan kveðskap til að laða að
viðskiptavini. Ljóðagerð Smiths ber einmitt vitni um þá geysilegu mögu-
leika sem búa í talmálinu, einkum hvað varðar rím og hrynjandi. I ljóðum
hans er brugðið upp myndum úr daglegu lífi á Jamaíka. Þar virðist á
yfirborðinu allt hjakka í sama fari fátæktar, kynþáttamisréttis og vonleysis
en undir niðri hleðst upp sú spenna sem á eftir að kollvarpa öllu, fyrr eða
síðar verður þögnin rofin.
Kvöldið 16. ágúst á sl. ári var Michael Smith á pólitískum fundi í
heimaborg sinni St. Andrews. Á fundinum andmælti hann einum aðalræðu-
manni fundarins, Mavis Gilmour menntamálaráðherra í núverandi stjórn
Verkamannaflokksins. Næsta morgun var Smith á gangi framhjá höfuð-
stöðvum Verkamannaflokksins í borginni þegar fjórir menn stöðvuðu hann
og spurðu hvað hann væri að gera í hverfinu. Að sögn sjónarvotta mun
Smith hafa svarað: „Eg er frjáls að því að ganga hvar sem er á þessari eyju.“
Þá hófu fjórmenningarnir að kasta í hann grjóti og hættu ekki fyrr en þeir
höfðu grýtt hann til bana.
Linton Kwesi Johnson
Tónleikar Linton Kwesi Johnsons og Dennis Bovell Dub Band hér á landi í
nóvember á sl. ári verða lengi í minnum hafðir. Johnson fæddist árið 1952 á
Jamaíka en fluttist 11 ára gamall til London þar sem hann hefur verið bú-
settur síðan. Undanfarin ár hefur hann starfað við tímaritið Race Today sem
einkum hefur látið málefni innflytjenda í Bretlandi til sín taka. Fyrstu
ljóðabók sína, „Raddir hinna lifandi og hinna dauðu“, sendi hann frá sér
árið 1973. Síðan hafa komið frá honum 2 ljóðabækur og 4 LP-plötur.
Að mati Johnsons varð reggítónlistin til fyrir áhrif þeirra breytinga sem
áttu sér stað í samfélaginu á Jamaíka á þeim tíma. Tónlistarmennirnir veittu
þeirri spennu sem lá í loftinu inn í tónlistina og tjáðu þannig á huglægan
hátt sögulega reynslu af kúgun og uppreisn. Hið sama má raunar segja um
kveðskap Johnsons sjálfs, hann einkennist af þessari innri spennu í ríkum
mæli. Hún birtist bæði í rími og hrynjandi ljóðanna og einnig í yrkisefnun-
um sem iðulega snúast um þá togstreitu sem átt hefur sér stað í samskiptum
þeldökkra innflytjenda við breskt samfélag. Ljóð hans „Inglan is a Bitch“
lýsir t. d. í fáum dráttum sögu svarts verkalýðs frá Vestur-Indíum í Eng-
306