Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Page 79
Jiirgen Borchert
Dauðinn og sannleikurinn
Nú er hann Páll Harðbeinsson slátrari dáinn. Og þegar fólk frétti um
látið hans varð því að orði: Jæja, þá hefur nú konan hans loksins
fengið friðinn. Páll slátrari var sum sé bölvuð skepna og fólk kallaði
hann Beina-Pál, af því að hann var eins og beinagrind í útliti. Menn
viku gjarnan úr vegi fyrir honum og það var líka eins heppilegt;
bjórfýluna lagði tvo metra fram úr honum þegar hann strunsaði
hnakkakerrtur um strætin með seppa sinn í bandi, eins félegur og
hann nú líka var. Hundtetrið batt hann utan við krána og þar fékk
hann að gjamma þangað til húsbóndi hans kom út. Af þessu gat allur
bærinn merkt hvar dólgurinn sat og svældi sína kolrömmu vindlinga
og kneifaði sinn tuttugasta bjór. Væri Palli slompaður, slangraði
hann bölvandi heim og lamdi konu sína. Hann var daglega slompað-
ur, svo að konan fékk sinn daglega skammt. Hver og einn verður að
hafa reglu á hlutunum, eins og þar stendur. Frú Harðbeins faldi
marbletti sína og skrámur undir hlífðargleraugum og skýluklútum,
þegar hún fór út á daginn að kaupa kvöldskammtinn handa eigin-
manni sínum. Sérhver ný flaska, sem hún keypti, þýddi nýja skrokk-
skjóðu fyrir háttumálin. Þannig var allt í stökustu röð og reglu.
Og nú er svínið hann Páll Harðbeins dauður. Bólguþrútinn lifrar-
skrattinn hafði sagt upp vistinni.
Og ekkjan, hvað gerir hún?
Ekkert lægi nær en að hún birti neðanskráða auglýsingu innan um
dánartilkynningar bæjarblaðsisns:
Eftir langvinnan sjúkdóm, sem einungis var sjálfskaparvíti, hefur
eiginmaður minn, það bæjarkunna svín, Páll Harðbeinsson, 67 ára að
aldri, drukkið sig í hel, eins og við mátti búast.
Þetta tilkynnist hér með af mikilli ánægju.
Anna Harðbeins, fædd Muller.
Næstu daga verður tekið á móti hamingjuóskum frá 1—3.
309