Tímarit Máls og menningar - 01.06.1984, Blaðsíða 83
Barnid
Svartar sjalvar-buxurnar1 flöksuðust rifnar um langa fótleggina;
sums staðar grisjaði í hvítar nærbuxurnar.
Konurnar stóðu undrandi og störðu á eftir honum.
Hava gamla bærði gamlar og skorpnar varirnar:
„Olánssami drengur! Vesalingurinn, sjáið þið ekki hvað honum
líður illa? Hann er að springa af harmi. Hann gat ekki horft framan í
okkur. Eins og hann hefði sjálfur drepið konuna . . .“
Sú stuttfætta og kinnfiskasogna: „Nei, það gerði hann ekki, hann
hugsaði bara ekkert um Zölu. Hann ætti sjálfur skilið að drepast.
Látum hann ganga frá þorpi til þorps með barnið á handleggnum. Já,
gangi hann bara. Það er sagt að hún hafi mátt liggja í tuttugu daga
áður en hann fór með hana til læknis. Fylgjan var víst föst inni í henni
og var víst farin að úldna, þetta segir fólk. Var nokkur eins og Zala?
Haldið þið, að ef hún Emine gamla hefði verið á lífi, að hún hefði
látið þennan villimann hann Ismail fá hana Zölu?“
„Vesalings maðurinn," heyrðist í Huru þaðan sem hún sat. „Nú
biður hann um hjálp hjá vandalausum. Ismail er góður og heiðarlegur
maður, sem skiptir sér ekki af öðrum, hvorki til góðs né ills.“
„Skyldi hann finna nokkurn til að fóstra barnið," spurði Hava
gamla.
Sú með oddhvössu hökuna: „Hver heldur þú að vilji taka það?
Fólk getur ekki einu sinni hugsað um sín eigin börn. Sjáðu Huru til
dæmis! Hér er hún að vinna og skilur fallega barnið sitt eftir heima.
Þar er það banhungrað og grætur allan liðlangan daginn, suðar eins
og býfluga, og hún hér og mjólkar sig á jörðina. Barnið hennar Huru
hefur það varla af. Það er von, þegar hún kemur heim á kvöldin er
mjólkin orðin eins og blóð . . .“
Huru stóð og hallaði sér upp að trénu. „Haldið þið að mig langi til
að koma? Það er eymdin sem rekur mig af stað. Annars værum við
dauð úr hungri, öll fjölskyldan. Við yrðum að þiggja hjálp af öðrum.
Það er ekki eins og þú vitir þetta ekki, systir. Ef ég kæmi bara
ánægjunnar vegna . . .“
„Já, það er erfitt," sagði Hava gamla. „Að þiggja ölmusu er verra
en dauðinn.“
1 Buxur sem karlmenn og konur bera, mjög víðar. Þeim er haldið saman með
líningum um mitti og ökkla.
313