Tímarit Máls og menningar - 01.11.1989, Blaðsíða 51
Snorratorrek
Sturlusonar tækist honum ekki að móta í aðra mynd en þá sem
hentaði misvitrum stjórnmálamönnum og bókaútgefendum.
Best að hætta við allt saman.
Og þó. Atti ekki æska landsins rétt á að fá sanna mynd af þeim
manni sem hún skyldi taka sér til fyrirmyndar? Hin saklausa, fram-
sækna æska sem skyldi erfa landið! Snorri hafði það úr blöðunum
að æskan væri saklaus og framsækin og skyldi erfa landið. Hann var
ekki enn kominn svo langt í jarðarþroska að hann tortryggði blöðin,
jafnvel þótt hann hefði staðið þau að helberum lygum hvað varðaði
tungumálið.
Hann reis á fætur og stundi þungan, sótti baukinn góða með
uppstigningarpillunni og horfði lengi og hugsandi á hann. Svo stakk
hann honum snögglega í buxnavasann þegar barið var að dyrum.
Það reyndist vera sambýlingur hans og samkennari sem vildi
kynna sig og heilsa upp á hann, ungur, kubbslegur maður með stór-
an skallablett á ljóshærðu barnshöfði. „Það er kominn matur“ -
sagði kubbur og reyndi að fitja upp á einhverju samræðuefni. En
það varð ekkert úr samræðum, því hann skildi ekki baun af því sem
Snorri sagði, hvort heldur hann reyndi að tala móðurmál sitt eða
ensku. „Eg hélt að þú værir Islendingur" - sagði kubburinn von-
svikinn. - „Þú heitir allavegana íslensku nafni.“
„Ek em maðr íslenzkr" - sagði Snorri, en samkennarinn hristi
höfuðið skilningsvana og svo röltu þeir þegjandi saman í kvöldmat-
inn.
I matsalnum heyrðist ekki mannsins mál fyrir hávaða. Risastórir
hátalarar grenjuðu unglingamúsík yfir borð og bekki og unglingarn-
ir æptu og skræktu hver í annars eyru. Presturinn var mættur með
bros á rauðum vörum og gullspangagleraugu og hún benti þeim
sambýlingum að setjast hjá sér við borð. Sökum hávaða varð ekkert
úr samræðum og Snorri var í hjarta sínu þakklátur fyrir það. Þess í
stað horfði hann smeykur á unglingana þar sem grillti í þá í gegnum
gufuna úr súpupottum og kássuskálum, þeir byltust hver um annan
þveran, bólugrafin andlitin teygðust og skrumskældust undir fjólu-
bláum hártjásum og purpurarauðum hanakömbum og það lagði af
þeim súra lykt sem minnti á blóðvöll í hrímkaldri sláturtíð. Nokkrir
sveinanna voru klæddir í leðurbrækur og ermalausa leðurjakka, þeir
TMM IV
449