Tímarit Máls og menningar - 01.11.1989, Blaðsíða 102
Tímarit Máls og menningar
,Jæja,“ sagði hún, „ég ætla að fara og kaupa sandala einsog John Lenn-
on. Ekki koma of seint heim, ég bíð eftir þér.“
Eftir sat ég einn. Og drakk úsó, þjóðardrykk Grikkja. Eg hafði ekki
dottið í það síðan um veturinn og því ekkert að skammast sín fyrir. Og
aldrei slíku vant var ég með fulla vasa fjár, nóg til að hvolfa við hverri ein-
ustu flösku á barnum. En duttlungar örlaganna létu ekki að sér hæða.
Aldrei hafði ég verið eins þurrbrjósta. Var hægt að hugsa sér eitthvað
skelfilegra en fráfall hans?
Ég gæfi tíu þúsund líf fyrir Richard Brautigan einan. Ég reyni að mæla
þetta af yfirvegun. Tuttugu þúsund. Ég skammast mín ekkert fyrir að segja
það. Það ganga hundruð þúsunda fyrir ætternisstapa á degi hverjum. Gera
menn sér grein fyrir miljónum lesenda hans, þessu forðabúri af nýju blóði
á borð við „Svo berist ekki burt með vindum,“ eða „Hefnd grasflatar-
innar“ . . . ? Ég hefði ekki viljað missa af „Tokyo-Montana Express“ fyrir
öll heimsins auðæfi.
Það var um eittleytið að ég sneri aftur á hótel Akropolis. Þetta kvöld var
mér ekkert að vanbúnaði að meta tjónið sem við höfðum orðið fyrir. Ég
stillti mér upp við afgreiðsluborðið. Næturvörðurinn blikkaði mig einsog
við værum samsekir. Ég tók stefnuna á biðsalinn og pantaði eina flösku.
Aldrei á ævi minni hafði ég verið jafn fullur og skýr í senn. Ég er viss um
að ég hefði getað staðið á einni löpp en lét mig samt falla í stól. Peran í loft-
inu virtist vera af of miklum styrkleika. Upp fyrir mér rifjaðist smásagan
þar sem hann lýsti upp skúrinn sinn með 200 watta perum . . . Times
Square, Montana.
Ég bauð náunganum að deila með mér flöskunni. Nei, hann hafði aldrei
heyrt á Brautigan minnst, en fiskaði þess í stað upp úr vasa sínum litla
öskju og setti á borðið fyrir framan mig með sigurbros á vör. Ég skýrði út
fyrir honum að Brautigan væri eitt af því sem gerði lífið þess virði að lifa
því, ég var kominn á fremsta hlunn með að bresta í grát, en hann hélt áfram
að brosa út að eyrum og bauð mér að opna gjöfina. Það voru sígarettubréf.
Fimm nýir pakkar. Honum hafði tekist að særa þá út úr bar niðri í
Pyrrhus, hann hafði lagt á sig þetta ómak mín vegna.
Skjálfhentur rúllaði ég mér eina með langri og veikburða rithöfundar-
hendi. Ég vissi ekki hvernig ég átti að þakka honum. Ég vissi ekki hvar ég
átti að byrja.
„Richard Brautigan . . .“ tuldraði ég. „Nafn hans var Richard Brautigan.“
Pétur Gunnarsson þýddi
500