Tímarit Máls og menningar - 01.11.1989, Blaðsíða 65
Hugleiðingar um aðferðafrœði
kirkjunni á Melum, og úr handbókum presta skírnarformúluna, fjandasær-
inguna, og upplýsingar um hvernig börn séu skírð, nakin úr volgu vatni, sé
kalt í veðri. Þar blanda ég saman upplýsingum úr sértækri heimild og al-
mennri til að komast eins nálægt horfnum raunveruleika þess dags er
Snorri var skírður og sagnfræðileg aðferð leyfir. Ef maður heldur sig innan
þess ramma sem heimildirnar gefa, getur maður með sviðsetningu af þessu
tagi hjálpað lesanda að skynja og sjá fyrir sér fortíðina.
Sagnfræðingar sjá í tilvísunum á hvaða heimildum textinn byggir, geta elt
uppi kjarnann og fundið. Með því að gefa til kynna í texta til dæmis að
maður beiti innlifun, eða að frásögnin lúti hér lögmáli þjóðsögu og vísa
samviskusamlega með fínasta útsaumi neðanmáls til þeirra heimilda sem
textinn byggir á brýtur maður ekki sannleikseið sagnfræðingsins. En
ávinningurinn er sá að ef vel tekst til er hægt að ginna fólk sem ekki nennir
að lesa þurran sagnfræðitexta í samband við fortíðina. Sagnfræði fyrir al-
menning gefur ekki eins áreynslulaust samband við fortíðina og fæst í kvik-
mynd, en miklu sannara, því kvikmyndagerðarmenn íslenskir leggja sig
aldrei niður við það að fræðast af sagnfræðingum vilji þeir gera sögulega
kvikmynd.
Eg hef í þrjú ár dundað mér við að skrifa langa ævisögu Snorra, og styttri
umfjöllun um rímur, náttúrufræði og leikrit hans. Þó verkið sé byggt á ná-
kvæmri tímafrekri frumrannsókn er textinn ekki skrifaður fyrir sagnfræð-
inga heldur upplýstan almenning. Fyrri hlutinn er úrvinnsla heimilda til
sögu átjándu aldar prests, ævisaga og um leið lýsing á sögu aldarinnar og
menningarástandi, kjörum og lífsbaráttu. Ég hef unnið úr heimildum um
þær stofnanir og embætti sem séra Snorri tengist. Ég fjalla einkum um
menntun, viðhorf, lífskjör og hlutverk presta, og um kjör og fræðslu sókn-
arfólks. Rannsóknir heimilda er varða einstaklinga gera sagnfræðingi kleift
að draga upp mynd af hlutverki minnstu eininga stjórnkerfisins, hreppa og
sókna. Með því að fylgja lífsferli prests má rekja áhrif breytinga í réttarfari
og kirkjusögu á starf hans og hlutverk. A sama hátt má sjá hvaða áhrif
harðindi, fjárkláði og náttúruhamfarir hafa á líf og kjör presta og sóknar-
fólks. Einnig verður ljóst þegar þessar heimildir eru skoðaðar hvaða leið
ýmsar forordningar fara frá borði biskups og amtmanns til fólksins, og
hvað verður um framkvæmd ýmissa reglugerða og laga sem nefnd eru á
blöðum kirkjusögunnar og réttarfarssögunnar.
Inn í þessa sögu flétta ég kveðskap Snorra þar sem hann á við. Hann
yrkir um líf sitt, Æviraun í 24 erindum, yrkir um kaffi, tóbak og borðsiði,
ostagerð, flakkara, konur, sturlun, hrörnun, ketti, árstíðir, um móðuharð-
indin, jarðskjálftann 1786, höndlunina, sálmabók upplýsingarstefnunnar
„Leirgerði“ og Reykjavík. En til þess að slíta ekki framvindu ævisögunnar
463