Tímarit Máls og menningar - 01.11.1989, Blaðsíða 15
Andlit í djúpinu, brosandi
Sæunn systir mín gat gert svo margt en ég gerði mér ekki grein fyrir aldurs-
muninum og fannst ég vera ómyndarleg og vitlaus og geta ekkert. Sæunn
hafði saumað úr lasting buxur á Sighvat. Og ég sat við eldinn og það var
hlýtt og það var vetur og ég var svo ánægð þar sem ég sat og horfði í log-
ann í maskínunni og hélt á Sighvati. Og þá kom vísa fram í hugann. Eg
man hana enn. Hún var náttúrlega á allan hátt illa gerð, ekkert lík því sem
Kristján og Jónas gerðu á sama aldri. En hún var svona:
Bráðum koma blessuð jólin.
Jörðin fer í hvíta kjólinn.
Uppi á himni stjörnur ljóma.
Börnin dansa og söngvar hljóma.
Vísan bara kom, ég vissi ekki hvaðan en það fylgdi henni mikil gleði. Ég
mælti hana fram, hátt, fyrst fyrir Sighvat og svo fyrir alla. En það var gert
mikið grín að henni af því að hljóðstafina vantaði þó að það væri rím.
Krakkarnir sögðu að þetta væri bara bull, engin vísa.
Mér fannst svo leiðinlegt að það skyldi vera hlegið að henni, og ég skildi
ekki af hverju þetta var ekki vísa. Ég skynjaði ekki rímreglur þó að ég væri
orðin sex ára. Jónas og Kristján Fjallaskáld voru líka sex ára þegar þeir ortu
sínar fyrstu vísur, en þeir voru snjallir, þeir kunnu reglurnar. Kristján notar
hendingu úr öðru ljóði eins og ég og það var leyfilegt, en þeir höfðu gripið
bragreglurnar, þær greip ég ekki. Svo lærði ég reglurnar.
Ég fór tólf ára í barnaskólann á Neskaupstað. Valdimar Snævarr var þar
skólastjóri og hann lagði mikið upp úr því að kenna okkur að gera vísur.
Þegar ég var fjórtán ára gerði ég vísu sem ég var ánægð með og kann ennþá.
Eg var alltaf að gera vísur og skrifaði þær í bók - sumt voru ástarvísur og
svona - og í sömu bók safnaði ég myndum sem ég klippti út úr blöðum af
skáldum og rithöfundum. Ég geymdi þetta allt í konfektkassa, en konan
sem ég var hjá á Norðfirði tók einu sinni kassann, sagði að þetta væri meira
draslið sem ég skildi alls staðar eftir - ég svaf í borðstofunni - og hún setti
kassann í eldinn og brenndi öllu saman af því að hún var í illu skapi.
En þessa vísu man ég. Ég gerði hana á Þorraþræl og vitnaði þá auðvitað í
Kristján sem orti sinn Þorraþræl. En þetta var bara ferskeytla og kannski er
ég þar alveg eins og ég er í dag. Það koma fram sömu yrkisefnin — eins og
reyndar líka í fyrstu vísunni minni sem gæti alveg verið í safninu mínu. Þar
er líka þetta skrítna formskyn, og nákvæmlega það sama sem ég er enn að
hugsa. En Þorraþræll var rétt kveðin vísa. Ég var að vaska upp meðan ég
gerði hana og hún er svona:
413