Tímarit Máls og menningar - 01.11.1989, Blaðsíða 89
Wilhelm Emilsson
Túbuleikarinn
Stóra húsið er eina byggingin sem ég sé. Ég veit að þetta stóra hús,
sem streymir í gegnum augu mín, er kallað bygging. Samt er þetta
eina byggingin sem ég hef séð. Ég veit ekki fyllilega hvar eða hvenær
ég hef lært það, en ég get nefnt allt sem ég sé og heyri. Það hjálpar
mér. Ég hugsa stundum um hvernig það væri ef allt sem fyrir augu
mín ber kæmist aldrei í orð, heldur streymdi endalaust inn í augu
mín. Ég myndi aldrei skilja neitt. Það yrði vont.
Ég stend í sömu sporum, á sama stað og ég hef alltaf staðið. Ég
veit ekki hvers vegna og reyni að hugsa ekki mikið um það, því ég
veit að það hefur alltaf verið svona og verður áreiðanlega svona á
meðan ég lifi. Þess vegna borgar sig ekki að hugsa of mikið um það.
Því verður ekki breytt. Þess í stað fylgist ég með því sem fyrir augu
mín ber og ég veit hvað heitir. En samt. Stundum nægir það ekki og
ég kemst ekki hjá því að hugsa um sjálfan mig, þó ég viti að það er
hættulegt. Það sem ég sé og heyri er alltaf það sama, því ég er alltaf á
sama stað. Þess vegna er það ekki alltaf nóg, en. ég reyni samt að
beina huganum frá sjálfum mér sem oftast. Það er ekki óhætt að
hugsa of mikið.
Stóra húsið hefur hvíta veggi með gluggum sem virðast svartir frá
þeim stað sem ég stend. Ef ég horfi lengi á húsið verða skilin milli
glugganna og veggjarins óskýr. Þakið er rautt. Fyrir framan bygg-
inguna er hæð sem streymir rólega áfram, þar til hún endar við fætur
mér. Ég stend á grasflöt og grasið er klippt þétt upp að rótinni. Ég
veit að það er mjúkt, þó ég geti ekki snert það. Grasið vex ekki. Það
er alltaf eins. Stundum verð ég mjög þreyttur í fótunum.
Skammt frá mér er flaggstöng. Snúran, sem á að halda flagginu,
slæst við stöngina. En það er ekkert flagg. A grasflötinni er alltaf væg
gola og smellirnir sem heyrast þegar snúran slæst við flaggstöngina
eru alltaf í eyrum mér. Það hefur alltaf verið þannig og þeir trufla mig
ekki, því í rauninni heyri ég þá ekki nema þegar ég hugsa um þá.
487