Tímarit Máls og menningar - 01.11.1989, Blaðsíða 86
Tímarit Mdls og menningar
ekki stafað af hinu, að hugur hennar gat verið bundinn við allt annað en
það sem fólk var að ræða í kringum hana. Kannski var hún þá að hugsa um
Dante eða Baudelaire; Nicholson eða Klee.
Mig minnir endilega, að þegar við vorum kynnt, og við tókumst í hend-
ur, þá hafi hún aðeins sagt Já. Eða: Jæja. Og ég má kannski þakka fyrir að
hún sagði þó ekki Nei.
Sömuleiðis gat verið mjög stutt í kveðjum hjá henni ef maður átti við
hana símtal. Þá þótti gott ef hún sagði, stundum fyrirvaralaust: Vertu sæll.
En oft lagði hún á, án þess að viðhafa nokkra kveðju; ekki vegna þess að
hún vildi móðga mann, eða væri móðguð sjálf, heldur einfaldlega af því að
það er með öllu óþarft að viðhafa málalengingar þegar búið er að segja það
sem segja þarf. Hún var lærð kona hún Málfríður, en hún varð aldrei svo
lærð að hún kynni hina stuttu, ný-íslenzku kveðju Bæ. Yfirleitt var henni
ekki tamt að nota það orð nema t.d. í sambandi við Þorstein Björnsson úr
Bæ. Og ef hún hefði stamað eða tafsað, eins og nú þykir svo fínt í fjöl-
miðlum, þá hefði hún líklega nefnt hann Þorstein úr bæ-Bæ.
Nýlega var mér greint frá smá atviki, sem kann að gefa vissa hugmynd
um, hvað hún gat átt til, en hlýtur þó að vera nokkuð sérstætt:
Einhverju sinni sem oftar fór hún að heimsækja vinafólk sitt og frændur
hér í borginni; hafði jafnvel verið sérlega boðin af einhverju tilefni. Þegar
þangað kom voru fleiri gestir fyrir; en það var að sjálfsögðu tekið mjög vel
á móti henni, og hún settist.
En varla hafði hún setið nema svona í fimm eða tíu mínútur þegar hún
heyrðist tauta við sjálfa sig, þó það hátt að vel mátti greina:
„Mér leiðist. Eg er farin."
Reis svo úr sæti sínu, hóglát og hljóð, og gekk til dyra.
(Flutt á Málþingi Félags áhugamanna um ísl. hókmenntir, júní 1988.)
484
J