Tímarit Máls og menningar - 01.03.1993, Page 111
eins konar holdgervingur reynslu fyrri tíma.
Þessi tímahugsun Þorsteins er stundum sett
fram með afar nærtækri líkingu af fljóti, sem
streymir fram í sífellu og geymir allan tíma.
Sem fyrr fjallar Þorsteinn hér talsvert um
andstæður þeirra verðmæta sem eru sígild og
hafin yfir stund og staði og svo hinna hverfulu
sem litlu skipta en margir sólunda þó ævi sinni
í kapphlaupi eða glímu við. Hér er líka sleginn
kunnuglegur tónn úr höfundarverki Þorsteins
þegar hann bendir á furður lífsins í fyrirbærum
sem okkur þykja kannski orðin hversdagsleg:
Gamalt vað.
Og sorg merlar
líkast sólperlu á brotinu.
Ánni
bregður á bugðu.
Og fleira
fáheyrt og undarlegt.
Það ber líka að minna á að brýning er ekki horfin
úr skáldskap Þorsteins. I ýmsum ljóðum hér má
lesa, að þrátt fyrir mótbyr og okkur kunni að
vaxa í augum sá háski og svartnætti sem veg-
ferðin framundan virðist geyma, þá sé mikil-
vægt að ganga geiglaus áfram. Missa aldrei
trúna. Hver veit nema við göngum „til móts við
hetjur og söngva“ eins og segir í „Vorvísu".
Þorsteinn biýnir þannig fyrir mönnum kjark, að
lífið sé of dýrmætt og þess vegna megi menn
allra síst missa móðinn. Halda áfram „völtum
skrefum" gegnum þann „óminnisvef* sem
„nomir slöngva“ á okkur. Mikilvægi þessa sýn-
ist vera meginefni annars hluta og má í því efni
vísa til titilljóðsins sem rætt hefur verið að
framan. Þá eru einnig áberandi í öðmm hluta
Ijóð sem hafa manninn sjálfan að meginvið-
fangsefni. Þar er lögð áhersla á uppmnaleika og
samkvæmni og látin í ljós von um að maðurinn
brjótist út úr því „virki, hlöðnu úr heift og
sorta“, sem hann hefur búið um sig í og eigi sér
von um líf utan „skotheldra skjólgarða".
Frelsi hugarins
í þriðja hluta koma svo fram ýmsar stemmning-
ar þar sem m.a. er fjallað um töfra þessa lífs, það
sem skáldið telur mikilvægt að leggja rækt við.
Mér virðist að í þessari bók leggi Þorsteinn
kannski mest upp úr frelsi hugarins, að í krafti
andans geti hann hugsað hvað sem honum sýn-
ist og farið hvert sem er. Það frelsi verði aldrei
frá manni tekið. Það vekur hins vegar athygli að
þetta tengist ekki beint skáldskapnum sjálfum í
jafn miklum mæli og í íyrri ljóðabókum, t.d. í
Vatns götur og blóðs, þar sem mörg ljóð ijalla
um ljóðlistina sjálfa, hlutverk hennar og tilgang
og þá í samhengi við þetta frelsi. í þessari bók
er frelsi andans víðtækara, ef svo má að orði
komast, ekki bara bundið við skáldskapinn. Og
jafnvel reynast töfrar hversdagsins og stað-
reyndir manni og ljóði yfirsterkari, eins og segir
í ljóðinu „Skúm“:
Ég verð aldrei
vitrari en þetta ljóð.
En dordingull spann hér í dag
þráð af þeirri eilífð
sem var til
áður en orðið.
Þó eru hér nokkur ljóð sem hafa beinlínis skáld-
skapinn sjálfan að viðfangsefni og eitt þeirra er
„Sólin heim“, þar sem augljóslega er vísað til
listaskáldsins góða. Áður hafa ýmis skáld vitn-
að um áhrif hans á skáldskap sinn; frá seinni tíð
er kannski minnisstæðast ljóð Snorra Hjartar-
sonar sem endar á margræðri hendingu um
hinstu fótatökin: „Heyri þau heyri þau óma / í
hugar míns djúpi sem fyr / á langferðum lífs
míns og brags“. Með niðurlagi sínu tjáir Þor-
steinn svipaða hugsun í meitlaðri mynd:
Sólin heim!
Ég horfi nýr
undir hönd
grasadrengs.
Hér hafa einungis verið nefnd fáein stílleg og
TMM 1993:1
101