Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Page 33
MINNISVARÐl PÚSHKÍNS
skáldið lítilsvirða hörpu sína með því að tyfta „illsku ykkar og heimsku" enda
nóg ráð önnur til þess. Við skáldin, segir svo í lok kvæðisins, erum ekki fædd
til að gæta ykkar hags eða standa í bardögum heldur „til andagiftar, til ljúfra
hljóma og bænahalds." Hér virðist ekkert fara á milli mála: Púshkín vísar af
heift frá sér nytsemdarkröfum (talaði ekki sá illkvittni Búlgarín um að hann
hefði aldrei komið í orð „nytsömum sannleika“?) og segir: Áhyggjur lýðsins
koma okkur skáldum ekki við, við erum „synir himnanna“ í æðri þjónustu.
Engar sættir í boði, ekki einu sinni um að skáldskapur geri menn ögn skárri
en þeir annars væru (göfgi hjartalag manna) - hvað þá að hann fari með
þarfa lærdóma.
En í fjórða erindi Minnisvarðans er sem Púshkín taki aftur þennan harða
dóm. Hann segir - og hér fer á eftir einskonar bókstafsþýðing svo færra fari á
milli mála:
Og lengi verð ég þjóðinni (alþýðunni) kær vegna þess
að með hörpu minni vakti ég góðar kenndir
að á minni grimmu öld lofaði ég frelsið
og bað þeim föllnu vægðar.
Hér er að sönnu ekki játast undir einhverskonar grófa nytjahyggju sem lætur
skáldið keppast við að bæta daglegt siðerni manna með kennivaldi sínu. En
Púshkín telur engu að síður að skáldskapur hans styrki það góða hugarfar
sem hlýtur að vinna gegn því hugleysi, vanþakklæti og hjartakulda sem getið
er um í „Skáldið og skríllinn.“ Og hann vísar ekki lengur frá sér „bardögum“
tímans, hann telur sér það til ágætis að hafa lofað frelsið og beðið „þeim fót-
umtroðnu góðs“.
Hér er komið að miklu efni og margþættu: skáldi og valdi, og um leið -
með beinum og óbeinum hætti - að svari Púshkíns við þeim ásökunum sem
fr eklegast eru settar fr am í níði Búlgaríns og hans nóta um skáldið sem stærir
sig af frelsisást en skríður fyrir höfðingjum.
Vissulega hafði Púshkín lofað frelsið. Hann var aðeins átján ára þegar
hann orti Volnostj. Oda. (Óður til frelsisins) Þar er réttlætt og um leið lýst ótta
við blóðugt uppgjör við einvalda og harðstjóra. Dæmi eru tekin bæði af
frönsku byltingunni og morði Páls keisara fýrsta og mælt með því að „lögin“
verði sett í hásæti ofar konungum - m.ö.o. að hendur þeirra verði bundnar
með stjórnarskrá réttarríkis. Þetta kvæði varð öðru fremur til þess að Alex-
ander fyrsti, sonur Páls, sendi Púshkín í útlegð. Og það varð eitt af mörgum
verkum skáldsins sem ekki gat komið á prent fyrr en eftir hans dag en gekk
milli manna í afskriftum - eins og mörg kvæði Akhmatovu, Mandelstams og
Pasternaks á sovéttíma rússneskrar sögu. Púshkín orti nokkru síðar kvæðið
Derévnja (í sveitinni) - fyrri hlutinn er um sæla og uppbyggilega einveru í
TMM 1999:2
www.mm.is
31