Tímarit Máls og menningar - 01.06.1999, Blaðsíða 53
BLÍÐAN í AUGUM HENNAR
Ég gekk þegjandi út úr herberginu.
Klukkan var að verða níu að morgni, en allt húsið enn í fasta svefni
nema ég og móðir mín, því það var sunnudagur.
Ég gekk inn í baðherbergið og fór að raka mig, en móðir mín kom í
gættina þegar ég var að ljúka við raksturinn. Hún sagði:
Ég er alveg hissa hvað þú ert sterkur.
Ég sagði ekki neitt, en leit enn einu sinni á andlit mitt nýrakað í
speglinum og sá andlit föður míns tálgað og torkennilegt og andlit úr
fangabúðum Hitlers og andlit stúlkunnar með blíðlega augnaráðið í
lyftunni. Söguleg þróun, hugsaði ég. Hvað er það annars?
Þá heyrði ég móður mína segja:
Þú hlýtur að vera þreyttur. Þú þarft að fara að sofa.
Ég vissi, að hún mundi ekki sjálf fara að sofa, heldur mundi hún
ganga að símatólinu og tilkynna lækninum lát föður míns og síðan
mundi hún bíða. Ég horfði á hana og sagði:
Þú þyrftir frekar sjálf að fara að sofa. Ég ætla að fá mér göngu.
Ég fór í frakkann minn og gekk út. Ég vissi að það væru opnar kaffi-
stofur niðri í Hafnarstræti, þó sunnudagur væri, því þangað komu
hafnarverkamenn að fá sér kaffi, sömuleiðis timbraðir menn og rónar.
Ég gekk inn í eina sjoppuna, þar sem menn ýmist stóðu við barborð
eða sátu við lítil tveggja manna borð, því þarna var þröngt. Ég fékk mér
kaffi og vínarbrauð og settist við lítið borð við vegginn vinstra megin,
þegar inn var komið, en þarna var svo þröngt að það voru ekki nema
þrjú skref yfir að veggnum hægra megin.
Hversvegna hafði ég verið að hugsa um stúlkuna og fótleggi hennar
meðan faðir minn var að deyja? Ég hefði getað hugsað um svo margt
annað, einsog til dæmis hvað hægt yrði að gera eftir byltinguna, þegar
fundin yrðu ráð til að lækna krabbamein, - og öll önnur mein. Og ég
segi ekki, að ég hafi ekki hugsað um það, jú, ég gerði það, og stríðið og
sögulega þróun og díalektíska efnishyggju, - en það var ekki til neins,
það var ekki til neins.
Ég ætlaði að fara að bíta í vínarbrauðið, þegar mér varð litið til hlið-
ar og sá þá lágvaxinn mann í verkamannafötum sitja við næsta borð
upp við vegginn hægra megin, svo sem tvö skref frá mér. Hann hallaði
bakinu að veggnum og horfði á þá sem inn komu og út fóru. Ég kann-
aðist við þennan verkamann í sjón, því hann kom oft í þessar verka-
mannakaffistofur, þar sem ég fékk mér stundum kaffi, enda sást hann
TMM 1999:2
www.mm.is
51