Tímarit Máls og menningar - 01.09.2000, Qupperneq 97
HARRY POTTER TÖFRAR HEIMINN
Annar þáttur: Sagan af Harry Potter hefur dýpt
Það sem á mikinn þátt í að bækurnar hafa fengið svo góðan hljómgrunn hjá
fullorðnum er dýptin í þeim, þ.e. hversu lagskiptar þær eru. Því meira sem
flett er af - því dýpra sem lesandinn grefur - því meiri fróðleik finnur hann.
Fullorðið fólk sem les bækurnar rekst á ýmislegt sem fer framhjá börnum við
fýrsta lestur, en þessar skírskotanir verða samt síður en svo til að draga úr
áhrifum sögunnar á börn.
í þessum tilvikum lenda íslendingar (og aðrir sem lesa þýdd eintök af
Harry Potter) í annarri aðstöðu en þeir sem enskumælandi eru, því skírskot-
anirnar eiga sér yfirleitt rót í enskri tungu og þýðandi treystir sér ekki alltaf til
að finna hliðstæður þeirra á öðru tungumáli. Hér er um að ræða nöfn á per-
sónum, stöðum og hlutum, auk ýmissa hugtaka. Mannanöfn í bókinni eiga
sér mjög oft merkingu sem vísar til atvinnu viðkomandi eða innrætis. Sem
dæmi má nefna skólastjórann Dumbledore, en nafnið er fornt orð yfir bý-
flugu. Hann hefur líka óttalega mikið að gera, er með nefið ofan í öllu og veit
allt sem gerist - en lætur samt lítið á sér bera. Nafn erkióvinar Harrys í skól-
anum, Draco Malfoy er samansett af fornafni sem minnir á dreka og eftir-
nafni sem útleggst á frönsku sem slæm trú. Faðir hans heitir Lucius Malfoy,
en nafnið Lucius minnir óneitanlega á djöfulinn sjálfan. Aðalóvinurinn
Voldemort ber einnig ffanskt nafn, sem merkir nokkurn veginn að hann
svindli á dauðanum - enda er hann að reyna að ná í viskusteininn sem trygg-
ir honum eilíft líf. Argus Filch, vaktmaðurinn í Hogwartskóla, með augun á
öllu sem krakkarnir aðhafast, minnir á Argus úr grískri goðafræði, sem var
með augu um allan líkamann.
Staðanöfn hafa að sama skapi ýmsar aðrar merkingar, t.a.m. Slytherin, þar
sem flestir illkvittnu nemendurnir búa, sem gæti merkt „sly therein“
(„slóttugir þarna inni“). Nafnið minnir jafnframt á „slither" - að hlykkjast,
eins og slanga hreyfir sig, en í annarri bókinni kemur í ljós samhengið á milli
slöngu og Slytherin. Ýmsir hlutir bera skemmtileg nöfn sem oft eru í sam-
hengi við notagildi þeirra. Ein af bókunum sem Harry kaupir áður en hann
hefur námið heitir Leiðarvísir í ummyndun fyrir byrjendur og er eftir Emeric
Switch, og önnur heitir Töfradrykkir og elexírar effir Arsenius Jigger.
Þessi nöfn eru einstaklega vel valin hjá Rowling, en Helga Haraldsdóttir,
þýðandi bókarinnar hefur látið vera að finna þeim hliðstæðu á íslensku. Að
vissu leyti er það viturlegt: þetta eru breskar persónur í breskum skóla og það
væri einungis til að skrumskæla nöfnin og trufla flæðið í textanum ef farið
væri gefa þeim íslensk nöfn. Þá hefði Helga átt að láta vera að þýða einungis
eitt nafn, heiti Sprout prófessors, sem fær íslenska nafnið Spíra (nafn Spíru
passar reyndar vel við hlutverk hennar, því hún kennir grasafræði).
TMM 2000:3
malogmenning.is
95