Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Qupperneq 21
16
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
Mótun skólastarfs
Af þeim sökum var áhugavert að kanna hvort
kennarar telja að faglegt sjálfstæði grunnskóla
hafi aukist og einnig hvort þeir álíta að eigið
faglegt sjálfstæði hafi aukist, en líklegt má
telja að þetta tvennt fari saman. Niðurstöður
má sjá á 1. mynd.
Fram kemur tölfræðilega marktækur munur
í svörum kennara við því hversu mikið faglegt
sjálfstæði skóla hafi aukist og hversu mikið
þeirra eigið sjálfstæði hafi aukist. (χ2(4)=29,55,
p<0,001). Af 1. mynd má sjá að um 43%
kennara telja að faglegt sjálfstæði skólans hafi
aukist undanfarin ár. Aftur á móti telja aðeins
23% þeirra að faglegt sjálfstæði kennara hafi
aukist á sama tíma. Af þessu má ráða að
kennarar telja að eigið faglegt sjálfstæði hafi
ekki aukist að sama skapi og faglegt sjálfstæði
skólans. Kí-kvaðrat próf sýnir að hér er munur
eftir kynjum. Karlar telja fremur en konur að
bæði faglegt sjálfstæði skóla (χ2(4)=11,34,
p<0,05) og eigið sjálfstæði hafi minnkað
(χ2(4)=14,31, p<0,01). Um 33% karla telja
að sjálfstæði skóla hafi minnkað en aðeins um
15% kvenna eru þeirrar skoðunar. Þá álítur
31% karla að eigið faglegt sjálfstæði hafi
minnkað en samsvarandi tala fyrir konur er
13%.
Ákvarðanir
Kennararnir voru beðnir að svara hverjir
þeir teldu að bæru ábyrgð á ákvörðunum
um mikilvæg málefni grunnskólans. Almennt
má segja að þeir álíta að skólastjórar beri
meginábyrgð. Á 2. mynd sést að um 60%
kennara segjast ánægðir með hver tekur
ákvarðanir innan skólans og um 50%
kveðast sáttir við hvernig það er gert, þ.e.
ákvörðunarferlið. Milli 23 og 25% segjast ekki
hafa skoðun á þessu atriði og um 15% segjast
óánægðir með það hver tekur ákvarðanir og
hvernig þær eru teknar.
Kennarar voru einnig inntir eftir því hversu
mikinn áhuga þeir hefðu á að taka ákvarðanir
um mikilvæg mál í skólastarfi og einnig
hversu mikil áhrif þeir teldu sig hafa á sömu
málefni. Þeir voru beðnir að meta hvern þátt
á kvarðanum 0–10 til að sýna áhuga sinn eða
áhrif. Niðurstöður má sjá á 3. mynd.
Á myndinni má sjá að víða ber verulega í
milli. Kennarar vilja hafa meiri áhrif en þeir
telja sig raunverulega hafa. Að meðaltali er
þetta bil 2,6 stig. En bilið er afar breytilegt
eftir málefnum. Mest er það þegar um er að
ræða símenntunaráætlanir (3,9 stig), fjármál
(3,8 stig), skipan nemenda í námshópa (3,5
stig) og þróunarverkefni (3,4 stig).
Í einu atriði er tölfræðilega marktækur munur
eftir kynjum. Það er samstarf við foreldra, þar
telja konur (t(257)=2,3, p<0,05) sig hafa meiri
áhrif en karlar.
Á eftirtöldum sviðum segjast konur vilja hafa
meiri áhrif en karlar: samstarfi við foreldra
(t(257)=2,7, p<0,05), þátttöku í ákvörðunum
um skóladagatal (t(256)=2,7, p<0,01), að móta
símenntunaráætlanir (t(253)=2,6, p<0,05)
og hafa áhrif á skólanámskrá (t(253)=2,1,
p<0,05).
Um 14% karla virðast taka þátt í ákvörðunum
sem þeir hafa lítinn áhuga á samanborið við
6% kvenna (χ2(4)=10,48, p<0,05).
Fylgniútreikningur sýnir að kennarar með
stutta starfsreynslu höfðu meiri áhuga en
hinir reyndari á að taka þátt í ákvörðunum
um kennsluhætti (rs(258)=–0,20, p<0,01) en
reyndir kennarar höfðu fremur áhuga á að taka
þátt í ákvörðunum um símenntunaráætlanir
(rs(258)=0,14, p<0,05) og sérkennslu
(rs(258)=0,15, p<0,05).
Lítt reyndir kennarar töldu sig hafa meiri áhrif
en reyndir á námsmat ((rs(259)=–0,20, p<0,01),
kennsluaðferðir (rs(259)=–0,21, p<0,01) og
samvinnu við foreldra (rs(259)=–0,16, p<0,05).
Á hinn bóginn töldu reyndir kennarar að þeir
hefðu meiri áhrif en lítt reyndir á ákvarðanir um
kennslu nemenda með sérþarfir (rs(257)=0,17,
p<0,01), símenntunaráætlanir (rs(255)=0,15,
p<0,05), sjálfsmat (rs(253)=0,14, p<0,05) og
þróunarverkefni (rs(254)=0,13, p<0,05).
Samvinna
Fram hefur komið að í stefnumótunarplöggum
er lögð veruleg áhersla á samvinnu kennara