Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Side 47
42
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
Námshegðun leiðtoga í unglingabekk í ljósi
rannsókna og kenninga um menningarauðmagn
Berglind Rós Magnúsdóttir
Háskóla Íslands
Bourdieu leitaðist við að skýra misgóðan námsárangur og ólíka námshegðun nemenda með
kenningum sínum um menningarlegt auðmagn. Sumir fræðimenn telja að ráðandi skilningur
og notkun á hugtakinu sé takmarkandi miðað við skilgreiningar Bourdieus, t.d. í þekktri grein
hans; „The forms of capital“. Þessi gagnrýni er skoðuð í ljósi íslenskra rannsókna. Út frá þessari
almennu umfjöllun er sjónarhorninu beint að námshegðun leiðtoga í unglingabekk, þ.e. stráks og
stelpu í 10. bekk. Ávinningur þess að skoða leiðtoga nemendahóps í þessu samhengi felst í því að
ætla má að hegðun og viðhorf leiðtoganna sé birtingarmynd þess auðmagns sem er eftirsóknarvert
í samfélagi unglingahópsins sem þau tilheyra. Í greininni er því lýst hvers konar námshegðun þótti
virðingarverð í hópnum en slíkt virtist mótast talsvert af menningarauðmagni og kynferði. Sjónum
er beint að því hvað einkenndi námshegðun og námsviðhorf leiðtoganna, hversu miklu einkunnir
skiptu í því sambandi og hvaða hópar virtust hagnast á háum einkunnum. Þá er skoðað hvernig
niðurstöður samræmast skilgreiningum og áðurnefndum rannsóknum á menningarauðmagni.
Niðurstaða höfundar er sú að það þurfi að endurskoða notkun og skilning á hugtakinu til að öðlast
frekari skilning og skýringar á mismunandi náms- og félagsstöðu íslenskra nemenda. Skoða þarf
ólíkar víddir hugtaksins í samhengi við viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika innan
þess vettvangs sem rannsaka á og ráðandi gildi í menningarumhverfi unglinganna.
Bent hefur verið á að við auknar áherslur á
árangursskyldu (accountability) skóla gleymist
að gera ráð fyrir að verðmætamat unglinga
eigi misgóða samleið með gildum skólans
og áherslum (Olneck, 2000; Willis, 2003).
Unglingar skilgreina sig hver frá öðrum eftir
smekk, þekkingu, atferli og leikni á sviðum sem
þeim þykja merkileg. Þar sem unglingar hafa
lítil efnahagsleg eða pólitísk völd leggja þeir
áherslu á valdastöðu sína innan félagahópsins
(Milner, 2004). Til að skilja námshegðun
og hvaða skilning unglingarnir leggja í
námsárangur er athugun á verðmætamati og
valdastöðu þeirra lykilatriði.
Í þessari grein er rýnt í íslensk gögn úr
unglingabekk. Með áðurnefnd atriði í huga
er dregið fram hvaða merkingu einkunnir og
námsárangur höfðu fyrir leiðtoga af hvoru
kyni og hvers konar námshegðun skipti máli
varðandi þann sess eða virðingu sem þau höfðu
innan bekkjarins. Mikilvægi þess að skoða
leiðtoga nemendahópsins felst í því að sá sem
nær sterkri stöðu innan hans hlýtur að uppfylla
það sem flestir í hópnum telja eftirsóknarverða
eða virðingarverða hegðun, þ.e. hegðun og
viðhorf leiðtogans er birtingarmynd þess
auðmagns sem er eftirsóknarvert í samfélagi
unglinganna. Að lokum er rætt um hvernig
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006, 42–59
Hagnýtt gildi: Í fyrsta lagi getur greinin nýst rannsakendum sem hyggjast nýta sér rannsóknir og kenningar
um menningarauðmagn til að varpa ljósi á náms- og félagsstöðu nemenda. Í öðru lagi gæti hún verið
áhugaverð fyrir þá sem koma að mótun menntastefnu. Með auknum áherslum á árangursskyldu og gæðamat
skóla hafa einkunnir öðlast aukið vægi og því er mikilvægt að fá innsýn í hvort verðmætamat nemenda
sjálfra speglast í þeim áherslum. Í þriðja lagi getur hún nýst kennurum og skólastjórnendum til að velta
fyrir sér hvers konar námshegðun þykir eftirsóknarverð og virðingarverð og skoða niðurstöður greinarinnar
í samhengi við eigin námshópa.