Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Qupperneq 66
61
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
Victoria Carrington (2004) vekur athygli á
þessum orðum ungs ritstjóra tímaritsins Game
Zone og bendir á að staðhæfing sem þessi
eigi ekki aðeins við í Japan heldur sé um
alheimsfyrirbæri að ræða. Tölvuvæðingin og
samskiptatæknin frá frumbernsku undirbúi
ungt fólk fyrir læsi og þekkingu sem er allt
öðruvísi en sú þjálfun sem foreldrar þess og
kennarar hafa fengið. Carrington segir skólann
seinan að bregðast við þessu og bendir m.a. á
að tölvuleikir, sem áður voru fremur einhæfir
og oft andfélagslegir, veiti nú textalega og
menningarlega þjálfun í samskiptum sem geti
skipt sköpum fyrir framtíðina. Læsi sé að
breytast, en það sé flókið að átta sig á hvaða
merkingu það hefur.
Þessi sýn er umhugsunarverð þegar litið
er á rannsóknarniðurstöður sem benda til að
bóklestur ungs fólks fari minnkandi og að
nýju miðlarnir eða samskiptatæknin allt frá
sjónvarpi, farsímum, tölvuleikjum, mynd-
böndum, og mynddiskum komi að einhverju
leyti í staðinn fyrir hefðbundnari bók–,
blaða– og tímaritalestur ungs fólks (Guðný
Guðbjörnsdóttir, 2005a, 2005b; Guðný
Guðbjörnsdóttir og Sergio Morra, 1997, 1998,
2004a, 2004b; Hopper, 2005; Howard, 2006;
Rowan, Knobel, Bigum og Lankshear, 2002;
Þorbjörn Broddason, 1992, 2005). Einnig er
vel þekkt að stúlkur lesi meira en drengir og að
lestrarefni sé mismunandi eftir kynjum. Þó að
bækurnar sem eru vinsælastar meðal unglinga
breytist í gegnum árin, virðist lestrarmynstrið,
þ.e. hvers konar bækur eru lesnar, breytast
minna (Clarke og Foster, 2005; Guðný
Guðbjörnsdóttir og Sergio Morra, 1997; Hall
og Coles, 1999; Hopper, 2005).
Það er víða áhyggjuefni að æ stærri hópar
eiga í erfiðleikum með lestur eða læsi, einkum
drengir (Au og Raphael, 2000; Rowan og
félagar, 2002) og sumir ganga svo langt að
segja lestur kvenlæga fremur en karllæga iðju
(Wragg, 1997; Young, 2001). Í PISA- athuguninni
á læsi árið 2000 sem náði til 15 ára barna í
43 löndum kom fram marktækur kynjamunur
í lestrarfærni í öllum þátttökulöndum nema
Lichtenstein. „Það virðist sem 15 ára drengir
lesi almennt mjög lítið umfram það sem ætlast
er til af þeim ... og það sem meira er, helmingi
fleiri drengir en stúlkur sjá lestur sem tímasóun“
(OECD/UNESCO, 2003, bls. 155). Árið 2000
fékk Ísland 507 stig og lenti í 10.–12. sæti
og var fyrir ofan meðallag OECD- ríkjanna.
Finnar voru efstir með 546 stig. Árið 2003 fékk
Ísland hins vegar 495 stig í læsi og lenti fyrir
neðan meðallag OECD ríkja, sem var 500 stig.
Finnar og Japanir voru efstir með 548 stig, en
hinar Norðurlandaþjóðirnar lentu bæði fyrir
ofan okkur og neðan í stigafjölda, þá sem fyrr
(OECD, 2004). Betra læsi stúlkna hefur verið
nefnt sem líkleg skýring á betra gengi stúlkna
en drengja í skóla almennt og nýlega hefur
það verið nefnt sem hugsanleg skýring á betra
gengi íslenskra stúlkna en drengja í stærðfræði
í PISA- athuguninni og á samræmdum prófum
á Íslandi (Júlíus K. Björnsson, 2006). Yfirvöld
menntamála í öðrum löndum hafa víða brugðist
við með sérstökum áætlunum eða styrkjum.
Menntamálayfirvöld í Bandaríkjunum veita t.d.
sérstaka læsisstyrki til fræðsluumdæma, 100
milljónir dollara til átta fræðsluumdæma 2006–
2007, í þeim tilgangi að styrkja læsi unglinga
(Alliance for Excellent Education, 2006).
En hvað er átt við með hugtakinu læsi? Í
kjölfar tækniþróunar í tölvumálum og sam-
skiptum hefur þetta hugtak þróast hratt og
fræðimenn eiga fullt í fangi með að höndla það
í takt við breyttar skilgreiningar. Sjónarmið
Freire (Freire og Macedo, 1987), að læsi feli
í sér allt frá því að lesa orð yfir í að umskrifa
heiminn eða umbreyta honum, sýnir bæði
hve fyrirbærið er umfangsmikið og að um
persónulegt ferli er að ræða. Skilgreiningar
skipta t.d. máli í skólakerfinu og þegar ákveðið
er hvernig mati á læsi skuli vera háttað. Um
1970 var t.d. lögð áhersla á færni (e. skills)
í að skrifa, tala og lesa í Michigan- fylki í
Bandaríkjunum en um 1980 kom fram vaxandi
áhersla á lesskilning (e. comprehension), með
þeim afleiðingum að matsáherslur skólans
gjörbreyttust (Au og Raphel, 2000). Ýmsir gera
ráð fyrir því að ferlið frá því að lesa orð yfir í að
umskrifa heiminn, geri nú þær kröfur að tekið
sé tillit til mikilvægis margmiðlunar, mis-
Er „menningarlæsi“ ungs fólks að breytast?