Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2006, Page 82
77
Tímarit um menntarannsóknir, 3. árgangur 2006
þá til meiri lestrar sé hönnun vefsíðna og
blaða, að hitta þekkta höfunda og lestrarleikir
(Clarke og Foster, 2005). Það er alvarlegt
mál ef læsi er að verða kvenkennd iðja og
því þarf að hlusta á raddir drengja, hvers
vegna það þykir ekki karlmannlegt að lesa
eða læra heima á vissum aldri (Young, 2001;
Berglind Rós Magnúsdóttir, 2003). Millard
(1997, 2002) mælir með lestrarkennslu með
frjálsu vali á textum á mismunandi formi, en
síðan komi til sameiginlegt mat nemenda og
kennara á textum með það tvöfalda markmið
að nemar verði gagnrýnir á texta og átti sig
á gildi þeirra hvort sem er til fræðslu eða
skemmtunar. Þó að sumir vilji halda í þann
skilning að menningarlæsi felist í lestri bestu
textanna sem til eru í tiltekinni menningu
(Hirch, 1987), benda aðrir á að stöðugt bætist
við það sem þykir æskileg menningarleg
kunnátta og að mælikvarðar á hvað sé gott
breytist einnig (Totosy De Zepetnek, 1994).
Aðrir telja mikilvægara að allir fái að læra
það í skóla sem er merkingarbært fyrir við-
komandi sem getur farið eftir einstaklingum,
kynferði eða bakgrunni (Gee, 1987; McCarthy
og fl., 2003; Young, 2001). Hvort sem
hugtakið menningarlæsi er notað eða ekki, er
þörf á víðari skilgreiningu sem er í takt við
breytta miðla og fjölmenningarlegar aðstæður
samtímans (Rowan og félagar, 2002).
Að lokum skal ítrekað að athugunin á
nemum í 10. bekk 2005 náði nú eingöngu til
Reykjavíkur og því væri æskilegt að endurtaka
hana með stærra úrtaki af öllu landinu og
meiri áherslu á tölvulæsi, SMS, blogg, mynd-
eða margmiðlun auk hefðbundins menn-
ingarlæsis. Brýnt er að finna betur út á hvern
hátt læsi á nýju miðlana nýtist til framtíðar
og hvort eða að hvaða leyti það getur komið
í staðinn fyrir áherslur á hefðbundið bóknám,
ekki síst í ljósi þess að breyting á læsi virðist
hafa áhrif á sjálfsmynd, athafnir, námsval og
heimssýn einstaklinga (Carrington, 2004). Þetta
er mikilvægt bæði fyrir nemendur, skólann og
foreldra, því á meðan það er ekki ljóst má búast
við að skólinn haldi sig við hefðbundna texta og
bóknám. Nýframkomnar tillögur um breyttan
framhaldsskóla (Skýrsla Starfsnámsnefndar,
2006) þar sem vígi bóknámsins virðist riðlast
með minni aðgreiningu á bók- og verknámi er
ef til vill vísbending um að nýju miðlarnir og
breytt læsi séu að ryðja brott hefðbundninni
skiptingu í bók– og verknám. Það er ögrandi
rannsóknarviðfangsefni í náinni framtíð.
Hugtakið menningarlæsi þarf að ná til læsis
á alla viðeigandi miðla og til þekkingar sem
stuðlar að virkni í samfélaginu, bæði heima
fyrir og alþjóðlega.
Skilgreining á menningarlæsi og því besta
í menningararfi okkar er eðlilega umdeild og
líklegt að nokkur átök verði um það hvað eigi
að draga fram í skólakerfi okkar til að stuðla
að sameiginlegri sjálfsmynd á nýrri öld. Það
markmið þarf einnig að hafa í huga þegar
lesefni er ákveðið og læsi ungs fólks er metið.
Hvort tveggja skiptir máli, læsisferlið og hvað
lærist. Í ljósi byltingarinnar í samskiptamiðlun
og áhrifa fjölmenningar eru að eiga sér stað
umtalsverðar breytingar á því sem Bourdieu
kallar menningarsvið og menningarauð og
talað er um að rjúfa sambandið á milli ráðandi
afla og textavals, hleypa röddum ungs fólks og
minnihlutahópa meira að (Hulan og Warley,
1999). Þetta er internetið og svokallaðar
bloggsíður einmitt að gera. Þetta kallar ef
til vill á mun sveigjanlegri námskrár en þær
hefðbundnu greinabundnu námskrár sem hér
hafa tíðkast (Guðný Guðbjörnsdóttir 2003a og
2003b). Það er von höfundar að þessi rannsókn
eigi eftir að nýtast til samanburðar í framtíðinni
og við ákvarðanir menntamálayfirvalda um
skipulag og inntak menntunar á Íslandi, svo
að sem flestir verði færir til að meðtaka og
endurmóta menningararf landsmanna og að ná
tökum á „menningarlæsi“ til framtíðar.
Abstract
This research concerns reading and leisure
habits of 10th graders in Reykjavik in 2005.
The goal was to look at changes in the “cultural
literacy“ of young people by comparing the
results with available research. A questionnaire
was administered to all 10th graders (15-16
year olds) in two schools in Reykjavik, 107
Er „menningarlæsi“ ungs fólks að breytast?