Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 10
10
innar á. Þá sem vildu líta á hin nýju trúarbrögð sem grein á meiði gyðing-
dóms og hina sem vildu hefja trúboð meðal útlendinga eða „heiðingja“.2
önnur krísa kom til á 4. öld er staða kirkjunnar andspænis rómverska rík-
inu var í deiglu. Þá kom til átaka milli þeirra sem sáu sóknarfæri í samleið
kirkjunnar með ríkinu og hinna sem skynjuðu í því hættu sem m.a. fólst í
veraldarvæðingu kristninnar.3 Þá fól siðaskiptatíminn á 16. öld í sér krísu
fyrir kirkjuna sem klofnaði í rómversk-kaþólska kirkju og kirkjudeildir
mótmælenda. Á öllum þessum skeiðum stóð kirkjan frammi fyrir a.m.k.
tveimur ólíkum kostum sem lýsa má sem aðlögun eða aðgreiningu. Í fyrsta
og síðasta dæminu var leið aðgreiningar farin en í miðdæminu valdi megin-
straumur kirkjunnar aðlögun. Í öllum tilvikum hafði valið langvarandi
afleiðingar fyrir kirkjusögulega þróun sem raunar hafa sett mark sitt á sögu
kirkjunnar allt til þessa.
Hér er litið svo á að kirkjan hafi einnig lifað krísutímabil við upp-
haf nútímans og í nokkur skipti eftir það í glímu sinni við nútímann eða
nútímaleg fyrirbæri. Nútímann má skilgreina með mismunandi móti. Löng
hefð er fyrir að líta svo á að nútíminn hefjist á 16. öld og í kirkjusögulegu
tilliti er þá miðað við siðaskiptin. Þó má færa rök að því að nútíminn hafi
hafið innreið sína í Evrópu með vísindabyltingu 17. aldar.4 Einnig mætti
miða við upplýsinguna á 18. öld. Loks má líta svo á að hann hafi hafist enn
síðar, ekki síst hér á landi. Er þá tekið mið af breyttum framleiðsluháttum,
lifnaðarháttum, efnahag, búsetu, stjórnsýslu og hugmyndafræði. Má þá
miða við síðari hluta 19. aldar eða tímann frá um 1860.5 Hér er gengið út
frá síðasttöldu afmörkuninni.
Hér er hugtakið nútími þó ekki fyrst og fremst notað um sögulegt tíma-
bil heldur hugmynda- og hugarfarssögulegar aðstæður sem nefna má mód-
ernítet. Í kjölfar vísindabyltingarinnar urðu viðmiða- eða heimsmyndar-
hvörf sem smám saman og einkum með upplýsingunni náðu til æ fleiri
2 Clarence E. Glad, Átökin um textann: Nýja testamentið og upphaf kristni, Reykjavík:
Grettisakademían, Háskólaútgáfan, 2004, bls. 74–75.
3 Alf Tergel, Från Jesus till moder Teresa, Stokkhólmi: Verbum, 1989, bls. 76–77.
4 Stephen Toulmin, Kosmopolis. Hur det humanistiska arvet förfuskades, Stokkhólmi:
Ordfront Förlag, 1995 [1990].
5 Guðmundur Hálfdánarson, Íslenska þjóðríkið: uppruni og endimörk, Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag, ReykjavíkurAkademían, 2001, bls. 99–134; Erla Hulda
Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–
1903, Reykjavík: Sagnfræðistofnun, RIKK, Háskólaútgáfan, 2011, bls. 260–263.
HJALTI HUGASON