Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 11
11
Evrópumanna.6 En þá ruddu náttúruvísindaleg viðmið og heimsmynd sér
til rúms á kostnað þeirra trúarlegu (kristnu) sem höfðu verið drottnandi til
þess tíma. Þar með var tekið afgerandi skref inn í nýtt hugarfar eða menn-
ingu og hefur það skref verið kallað sekúlarísering (afhelgun, veraldarvæð-
ing). Annað skref í sömu átt fól í sér það sem kalla má individúalíseringu
sem fólst í hraðvaxandi einstaklingshyggju. Áður hafði fólk í ríkum mæli
litið á sig eða skynjað sem hluta af stærri heild, stóru altæku heimili, ætt,
sókn, héraði eða landshluta og síðar ríki eða þjóð. Með hinni nýju ein-
staklingshyggju öðlaðist einstaklingurinn nýtt frelsi til hugsana, orða og
athafna, varð myndugur á stöðugt fleiri sviðum lífsins þar á meðal hinu
trúarlega. Þar með veiktist staða áður viðtekinna kennivalda stórlega. Á
það ekki síst við um kirkjuna.
Í þessari grein verður kannað á hvern hátt evangelísk-lútherska þjóð-
kirkjan á Íslandi brást við nútímanum um aldamótin 1900 og fram yfir
miðja 20. öld. Gengið verður út frá því að á þessu tímabili hafi hún mætt
tveimur krísum í hugmyndafræðilegu tilliti. Annars vegar er átt við þá
ögrun sem kirkjan mætti í þeirri heimsmynd (e. paradigm) sem fylgdi
nútímanum og nefna má náttúruvísindalega raunhyggju og hafði í ýmsum
myndum áhrif á hugmyndaheim fólks í upphafi 20. aldar. Hins vegar er
átt við þá krísu sem vestrænar þjóðir og kirkjur gengu í gegnum við lok
síðari heimsstyrjaldarinnar og upphaf kalda stríðsins. Spurt verður hvort
krísuástandið sem myndaðist hafi leitt til spennu inn á við í kirkjunni eða
haft áhrif á samband hennar við umhverfið. Þá verður og spurt um hvort
leið aðlögunar eða aðgreiningar hafi verið valin. Í þessari grein verður
fengist við tvö tímabil í sögu íslensku þjóðkirkjunnar sem talin eru ótvíræð
dæmi um krísuástand. Er þar átt við lokaár 19. aldar og upphaf þeirrar 20.
og síðan árin eftir síðari heimsstyrjöldina.
Úti á þekju þjóðlífsins
Það er hefðbundið mat að staða íslensku þjóðkirkjunnar hafi verið sterk
við upphaf 20. aldar og að hún hafi átt nána samleið með þjóðinni.7 Hér
6 Með viðmiða- eða heimsmyndarhvörfum er átt við straumhvörf af því tagi sem am-
eríski vísindasagnfræðingurinn Thomas Kuhn (1922–1996) nefndi paradigm shifts.
Thomas Kuhn, De vetenskapliga revolutionernas struktur, Stokkhólmi: Bokförlaget
Doxa, 1981[1962].
7 Gunnar Kristjánsson „Kirkjan í keng: hugleiðingar um þróun íslensku þjóðkirkj-
unnar á tuttugustu öld“, Andvari 125/2000, bls. 69–80, hér bls. 69–70.
KIRKJA Í KRÍSU