Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 12
12
verður dregin upp önnur og nokkuð dekkri mynd. Svo virðist sem staða
kirkjunnar sem trúarstofnunar hafi að mörgu leyti verið veik.
Þórhallur Bjarnarson (1855–1916), þá nývígður biskup, sendi prestum
landsins hirðisbréf sitt í ársbyrjun 1909. Þar kvað hann ferðir sínar um
landið og bréfaskipti við menn um land allt hafa sannfært sig um „... að
sú hugsun [sé] all-víða að festa rætur hjá almenningi að þarfleysa sé að
hafa presta og kirkjur, og megi kasta hvorutveggju frá sér sem útslitn-
um tækjum“.8 Taldi hann þessi viðhorf vera samfara tveimur framfara-
fyrirbærum sem fylgdu nútímanum; þ.e. vaxandi skólamenntun og auknu
félagsstarfi. Það voru þó ekki þessi framfaraöfl sem slík sem ollu hinni
neikvæðu afstöðu að hans mati. Meinið var frekar að kirkjan kunni ekki
„mál nútímans“. Hann leit enda svo á að trúarþörf fólks almennt hefði
aldrei verið meiri en við upphaf 20. aldar.9
Sigurður Jónsson (1852–1926) bóndi, alþingismaður og síðar ráðherra
á Ystafelli í Köldukinn var inni á svipuðum brautum nokkrum árum síðar.
Að mati hans höfðu prestar ekki tekið nægilegt tillit til aukinnar menntunar
almennings, gagnrýnni hugsunar og almennrar vitundarvakningar meðal
þjóðarinnar. Það var skoðun hans og margra annarra að kirkjan stæði utan
þeirrar almennu umbótahreyfingar í þjóðlífinu sem orðið hafði.10
Um sama leyti og Þórhallur biskup sendi út hirðisbréf sitt birti hann
kafla úr bréfi frá „gömlum presti“ í málgagni sínu, Nýju kirkjublaði, þar
sem borið var saman ástand í trúarefnum áður fyrr og á ritunartímanum.
Taldi bréfritari líkt og biskup að trúarþörf væri engu minni en fyrrum
þótt deyfð í kirkjumálum væri sorgleg.11 Áleit hann að trúin væri ugglaust
efablandnari en áður „vegna mismunandi skoðana í ræðum og ritum“.12
Annars lýsti hann breytingum í trúarefnum þannig:
Nú íhugandi og efafull trú, þar sem um nokkra er að ræða. Þá blind
og dauð trú hjá þorranum. Sigæðið [svo] þá oft í öfugu hlutfalli
8 Þórhallur Bjarnarson, „Nýársávarp biskups til presta“, Nýtt kirkjublað 2/1909, bls.
17–20, hér bls. 18. Um almenna óánægju með kirkjuna sjá Friðrik J. Bergmann,
Ísland um aldamótin: ferðasaga sumarið 1899, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1901,
bls. 297–298; Friðrik J. Bergmann, Viðreisnarvon kirkjunnar, Reykjavík: Ísafoldar-
prentsmiðja, 1911, bls. 10, 13, 40–41.
9 Hjalti Hugason, „„... úti á þekju þjóðlífsins“: samband þjóðkirkju og þjóðar við upp-
haf 20. aldar“, Frjálslynd guðfræði í nýju ljósi, 2010, bls. 97–125, hér bls. 99–100.
10 Sama rit, bls. 100–101.
11 Sama rit, bls. 101.
12 „Nauðsyn trúarinnar“, Nýtt kirkjublað 4/1909, bls. 166–167, hér bls. 166.
HJALTI HUGASON