Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 16
16
Raunhyggja ryður sér til rúms
Torvelt er að fá heildstæða mynd af hugmyndasögu þjóðarinnar um alda-
mótin 1900. Þá mætti hún þó ýmsum hugmyndastraumum af auknum
þunga sem gert höfðu vart við sig í grannlöndunum um nokkurt skeið.
Flestir gátu þeir af sér ágengar spurningar fyrir framámenn þjóðkirkjunn-
ar sem þegar voru teknir að merkja að breytingar væru í aðsigi og að staða
kirkjunnar væri að veikjast. Ekki virðist óraunhæft að líta svo á að um þetta
leyti hafi myndast krísuástand fyrir þjóðkirkjuna sem fram undir þetta hafði
verið öflugasta skoðanamyndandi stofnun samfélagsins. Hér á eftir verður
leitast við að varpa ljósi á það umrót sem hér gætti, einkum með hliðsjón af
þeim stefnum og straumum sem komu fram í bókmenntum þjóðarinnar á
þessum tíma. Það virðist ekki óeðlilegt þegar „bókmenntaþjóðin“ á í hlut.
Á þessum tíma var þróun skólakerfis skammt á veg komin í landinu.
Þegar barnafræðslu sleppti var auk Lærða skólans í Reykjavík (frá 1846)
aðeins um að ræða gagnfræðaskólann á Möðruvöllum í Hörgárdal (tók til
starfa 1881) og Flensborgarskóla í Hafnarfirði (frá 1882) sem var á þess-
um tíma alþýðu- og gagnfræðaskóli. Þá störfuðu og í landinu prestaskóli
(frá 1847) og læknaskóli (frá 1876) auk lagaskóla sem tók til starfa 1908.
Friðrik J. Bergmann (1858–1918) prestur í Vesturheimi ferðaðist um hér á
landi um aldamótin 1900 og lýsti kennslu í tveimur fyrstnefndu skólunum
í ferðasögu sinni. Á þessum tíma var Friðrik mótaður af norsk-amerískum
vakningarkristindómi og mat það sem fyrir augu bar hér á þann mælikvarða.
Síðar snerist hann til frjálslyndari guðfræði. Friðrik var almennt jákvæður í
umsögnum um kennara Lærða skólans og tekur sérstaklega fram að rektor
hans, Björn M. Ólsen (1850–1919), hafi „lífsskoðun kristindómsins“ og vilji
að aðrir hafi hana. Þá sé honum annt um skólann „einnig í kristilegu tilliti“.22
Þó telur Friðrik skólanum í ýmsu áfátt og það sem helst vanti sé
andinn, sem gefur öllu líf og lyfting, – andinn af hæðum, andi krist-
indómsins og trúarinnar, – andinn, sem vekur hið siðferðislega líf
í sálu mannsins, lætur kærleikann til alls þess, sem gott er og göf-
ugt, fylla hjartað himneskum eldi og stæla viljann til öflugra fram-
kvæmda.23
22 Friðrik J. Bergmann, Ísland um aldamótin, bls. 70; sjá einnig Friðrik J. Bergmann,
„Quo vadis?: fyrirlestur fluttur á kirkjuþingi í Winnipeg, 25. júní 1898“, Aldamót
8/1898, bls. 29–73, hér bls. 60–63.
23 Friðrik J. Bergmann, Ísland um aldamótin, bls. 72.
HJALTI HUGASON