Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 17
17
Af þessum sökum taldi hann að efnilegustu piltar landsins bæru það úr
býtum á námsárunum „að verða hálfheiðnir í hug og hjarta“.24 Þetta staf-
aði af því, að hans mati, að kennararnir teldu það fyrir utan sinn verka-
hring „að hafa göfgandi áhrif á sálarlíf“ nemenda sinna.25 Mörðuvallaskóli
hlaut svipaðan dóm.26 Af þessu mati Friðriks J. Bergmann á íslenska
„menntakerfinu“ verða ekki dregnar víðtækar ályktanir. Þó virðist mega
ætla að þegar á þessum tíma hafi verið gengið út frá veraldlegri hugsun í
skólastarfinu og ekki lögð rækt við að móta lífsskoðanir nemenda fremur
en nú er gert.
Nokkur hluti þeirra sem luku stúdentsprófi á þessum árum hélt síðar
utan til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Matthías Viðar Sæmundsson
leitaðist við að greina það hugmyndasögulega umhverfi sem þeir höfnuðu
í þar og taldi það hafa einkennst af baráttu um trú, siðgæði og samfélags-
hætti. Leit hann svo á að um þessar mundir hafi ríkt „menningarupp-
nám“ í Kaupmannahöfn er reynst hafi mörgum íslenskum námsmönn-
um afdrifaríkt og jafnvel valdið „tómhyggju sem ekki varð lifað við“. Nú
kynntust þeir fyrir alvöru „félagslegum mannskilningi og raunhyggju,
raunvísindalegum viðhorfum til alls mannlífsins“.27 Þarna var um að ræða
viðbrögð við kenningum Charles Darwin á sviði náttúruvísinda og heim-
spekikenningum Augusts Comte (1789–1857) sem mótuðu mjög hug-
myndir manna í álfunni, sem og bókmennta- og menningarrýni Georgs
Brandes (1853–1927) sem setti mark sitt á danska menningarumræðu.28
Líta má á þetta sem það hugmyndaumhverfi sem íslenskir menntamenn
lifðu og hrærðust í um aldamótin og deildu í einhverjum mæli með þeim
sem þeir höfðu samneyti við, konum sínum og börnum, nemendum sínum
og öðrum skjólstæðingum sem og þeim embættismönnum og borgurum
sem þeir umgengust í félags- og samkvæmislífi. Þetta var hugarheimur sem
að verulegu leyti var mótaður af raunhyggju eða pósitívisma. Almenningur
í landinu mætti svipuðum straumum í bókmenntunum.
Með útgáfu Verðandi í Kaupmannahöfn 1882 bárust fyrstu áhrif real-
ismans eða raunsæisstefnunnar inn í íslenska menningarflóru. úr hópi
24 Sama rit, bls. 72; Björn Jónsson, „Fyrirlestur séra Björns í Miklabæ“, bls. 219–
220.
25 Friðrik J. Bergmann, Ísland um aldamótin, bls. 73.
26 Sama rit, bls. 154–156.
27 Íslensk bókmenntasaga, 3. bindi, ritstj. Halldór Guðmundsson, Reykjavík: Mál
og menning, 1996, bls. 771; Þorsteinn Antonsson, Örlagasaga, Reykjavík, Tákn
Bókaútgáfa, 1989.
28 Íslensk bókmenntasaga, 3. bindi, bls. 769–780.
KIRKJA Í KRÍSU