Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 18
18
Verðandi-manna héldu svo einkum Gestur Pálsson (1852–1891) og Einar
Hjörleifsson Kvaran (1859–1938) þessari stefnu á lofti í framtíðinni, ásamt
fleiri höfundum eins og t.d. Þorgils gjallanda (Jóni Stefánssyni,1851–1915)
sem runninn var upp úr þeirri róttæku frelsishreyfingu Suður-Þingeyinga
sem drepið var á hér að framan.29 Í verkum þeirra Gests Pálssonar og
Þorgils gjallanda gætir félagslegs raunsæis og samfélagsgagnrýni sem
beindist ekki síst að siðrænum stoðum samfélagsins og þeim stofnunum
sem gerðu tilkall til forræðis á því sviði og er þar einkum átt við kirkj-
una. Gestur fjallaði í mörgum sagna sinna um einstaklinga sem urðu fyrir
barðinu á þröngsýnum dómum samfélagsins eða af hálfu máttarstólpa
þess.30 Þorgils gjallandi afhjúpaði hins vegar hræsni og tvöfalt siðgæði
sem hann taldi að gætti ekki síst meðal presta.31 Hjá Einari H. Kvaran
gætti einkum sálfræðilegs raunsæis og siðrænnar ádeilu sem á síðari hluta
ævinnar vék fyrir beinni boðun siðrænna gilda.32 Kann það að haldast í
hendur við að hann snerist til fylgis við spíritismann eins og síðar verður
vikið að.
Með þessum höfundum ruddu raunsæisstefna og natúralismi sér til
rúms í íslenskum bókmenntum. Samkvæmt fyrri stefnunni fólst hlut-
verk rithöfundarins í að skrá hlutlægt það sem fyrir augu bar í mannlegu
samfélagi og lýsa því á röklegan og trúverðugan máta. Natúralisminn var
síðan beint framhald þessa en í anda hans sundurgreindu skáldin mann-
legar ástríður af vísindalegri nákvæmni og komu öðrum þræði fram sem
„læknar“ samfélagslegra meina.33 Hér var því um að ræða bókmenntalega
fagurfræði sem starfaði í anda raunhyggjunnar og þeirrar heimsmyndar
og mannskilnings sem henni var samfara. Þegar tekið er tillit til þeirrar
stöðu sem þeir höfundar sem nefndir hafa verið til sögunnar höfðu í sam-
tímaumræðunni má ætla að hugmyndir þeirra hafi mótað hugmyndaheim
þjóðarinnar og að verulegu leyti fyllt upp í það tómarúm sem skapaðist
þegar dró úr áhrifum kirkjunnar eins og lýst var að framan.
29 Þórður Helgason, „Rithöfundurinn Þorgils gjallandi“, bls. 34–38.
30 Þorleifur Hauksson, Sagnalist: íslensk stílfræði II — Skáldsögur 1850–1970, Reykja-
vík: Mál og menning, 2003, bls. 54–56.
31 Hjalti Hugason, „Hræsni og heiðarleiki í verkum Þorgils gjallanda“, án ártals,
(handrit að óútgefinni grein).
32 Þorleifur Hauksson, Sagnalist, bls. 74.
33 Íslensk bókmenntasaga, 3. bindi, bls. 772–773.
HJALTI HUGASON