Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Síða 20
20
um kristindómi, aukið svigrúm fyrir trúarlega einstaklings- og sjálfdæmis-
hyggju eða huglægni í trúarefnum.37 Í anda hennar kom t.d. fram hér á
landi og víða annars staðar krafa um kenningarfrelsi presta sem mikið var
rætt í upphafi 20. aldar. Þá var álit margra að prestar ættu að vera óbundnir
af játningum kirkjunnar og hefðbundinni lútherskri kenningu en jafnframt
ætti að opna leið fyrir söfnuði til að losa sig við presta sem þeir felldu sig
ekki við, t.d. vegna þess að þeir væru prestunum ósammála í trúarefnum.
Litu margir svo á að með tilslökun af þessu tagi væri mögulegt að halda
þjóðkirkjunni saman sem víðum ramma um trúarlíf þjóðarinnar og jafn-
framt réttlæta áframhaldandi tengsl hennar við ríkisvaldið eftir að trúfrelsi
hafði verið komið á. Hið nýfengna trúfrelsi skyldi þannig einnig gilda innan
þjóðkirkjunnar.38 Aðrir bentu á að kenningarfrelsi samræmdist ekki þeirri
skyldu sem á þjóðkirkjunni hvíldi, að vera evangelísk-lúthersk.39
Loks var jákvæður mannskilningur, sögusýn, þjóðfélagsviðhorf og
menningarafstaða samfara aldamótaguðfræðinni.40 Maðurinn var talinn
góður í sjálfum sér og þroskamöguleikar hans ótæmandi. Á þennan hátt
átti aldamótaguðfræðin samleið með menningu og samfélagi á því fram-
faraskeiði sem aldamótaárin voru í mörgum skilningi.
Margir af lykilmönnum íslensku þjóðkirkjunnar gengust aldamótaguð-
fræðinni á hönd og má þar telja Þórhall Bjarnarson biskup (1908–1916)
og guðfræðikennarana Harald Níelsson (1868–1928), Sigurð P. Sívertsen
og Jón Helgason (1866–1942) síðar biskup (1916–1938). Má tvímælalaust
líta á stefnuna sem tilraun þessara manna til að mæta áskorun nýrra hug-
myndastrauma sem gerðu vart við sig hér á landi í upphafi nútímans en
jafnframt til að endurnýja líf og starf kirkjunnar og tryggja stöðu hennar í
samfélaginu. Með þeirri áherslubreytingu sem þeir beittu sér fyrir í guð-
fræðilegum efnum vildu þeir sýna og sanna að kirkjan ætti samleið með
þjóðinni á þröskuldi nýrrar aldar sem einkennast skyldi af frelsi og svig-
rúmi hins fullveðja manns sem einnig skyldi verða myndugur í trúarlegum
efnum en ekki bundinn af hefð eða venju einni saman.
37 Sama rit, bls. 72.
38 Hjalti Hugason, „„... úti á þekju þjóðlífsins““, bls. 113–115; Hjalti Hugason,
„Þróun sjálfstæðrar þjóðkirkju á öndverðri 20. öld. Sjálfstæði eða aðskilnaður? –
Kirkjupólitík Þórhalls Bjarnarsonar 1893–1916“, Ritröð Guðfræðistofnunar 32/2011,
bls. 20–47, hér bls. 37–42.
39 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, Reykjavík: Einar Arnórsson, 1912, bls.
11–12, 31, 35–40; Einar Arnórsson, Játningarit íslenzku kirkjunnar, Reykjavík:
Sigurður Nordal, 1951, bls. 76–93.
40 Gunnar Kristjánsson, „Kirkjan í keng“, bls. 72.
HJALTI HUGASON