Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 25
25
aldamótaguðfræðina. Í framhaldsnámi í Svíþjóð, Sviss og Englandi hafði
Sigurbjörn kynnst samtímalegri guðfræði sem m.a. sneri baki við sögulega
gagnrýninni biblíutúlkun aldamótaguðfræðinnar og nálgaðist texta ritn-
ingarinnar sem gildan vitnisburð um trú og helgihald frumkirkjunnar og
leitaðist við að túlka boðskap þeirra inn í aðstæður á líðandi stundu.50
Heimsstyrjöldin síðari og upphaf kalda stríðsins á öndverðum 6.
áratug 20. aldar voru viðburðaríkur tími í íslensku þjóðlífi ekki síður
en á alþjóðavettvangi. Nægir þar að nefna lýðveldisstofnunina 1944
og þau átök sem fylgdu í kjölfarið um stöðu Íslands í samfélagi þjóð-
anna þar sem Keflavíkursamningurinn 1946, innganga Íslendinga í
Atlantshafsbandalagið 1949 og loks herstöðvarsamningurinn 1951 gegndu
lykilhlutverki.51 Þessar hræringar settu á margvíslegan hátt mark sitt á hug-
myndaheim Íslendinga. Til að varpa ljósi á það má vísa til bókmenntanna
líkt og gert var hér að framan. Bókmenntir eftirstríðsáranna einkenndust
í ríkum mæli af hernáminu og herstöðvarsamningnum, flutningi fólks úr
sveit í þéttbýli og borgarmyndun í Reykjavík og loks alþjóðavæðingu. Má
í því sambandi nefna Atómstöðina eftir Halldór Laxness sem út kom 1948,
sem og Íslandsklukkuna (1943–1946) þó á annan máta sé.52 Þá má benda á
að önnur ljóðabók Snorra Hjartarsonar (1906–1986), Á Gnitaheiði, kom
út 1952. Snorri var innhverft skáld og líta má svo á að hann hafi lengst af
stundað list sína listarinnar vegna. Ljóðin sem birtust í þessari bók bera
því hins vegar ljósan vott að skáldið hefur vaknað af draumi, mótast af
þjóðfélagsátökum samtímans og brugðist við þeim.53 Jóhannes úr Kötlum
(1899–1972) var á hinn bóginn pólitískt skáld. Ljóð hans á þessum tíma
endurspegla líka sterkt það andrúmsloft sem ríkti, eins og fram kemur í
kvæðabálkinum Sóleyjarkvæði (1952) og ljóðabókinni Sjödægru (1955) þar
50 Pétur Pétursson, „Þjóðkirkja, frelsi og fjölbreytni“, bls. 366–368; Torfi K. Stef-
ánsson Hjaltalín, Íslensk kirkjusaga, bls. 281–294.
51 Einar Laxness, Íslandssaga a-ö, 1. og 2. bindi, Reykjavík: Vaka–Helgafell, 1995, 1.
bindi, bls. 192–197, 2. bindi, bls. 39–40.
52 Íslensk bókmenntasaga, 4. bindi, ritstj. Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík:
Mál og menning, 2006, bls. 419, 455–459, 478–479; Hjalti Hugason, „Að lesa
Íslandsklukkuna í kreppunni“, Tímarit Máls og menningar 70/2009 [3], bls. 87–100,
hér bls. 95–96.
53 Hjörtur Pálsson, „Samfylgd á ljóðvegum“, Snorri Hjartarson, Kvæðasafn, Reykja-
vík: Mál og menning, 2006, bls. 11–39, hér bls. 24–25, 28–29; Hjalti Hugason,
„Biblíustef og pólitík í kveðskap Snorra Hjartarsonar“, Ritröð Guðfræðistofnunar
25/2007, bls. 147–170, hér bls. 149–167.
KIRKJA Í KRÍSU