Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Síða 27
27
hliðar á sama baráttumáli.57 Ummæli í ævisögu Sigurbjörns staðfesta þetta
mat en þar segir:
Mesta ævintýri í kirkjusögu aldarinnar og merkasti viðburður í sögu
lýðveldisins er tvímælalaust endurreisn Skálholts, hins fornhelga
höfuðstaðar landsins eftir nálega tveggja alda vanrækslu og niður-
lægingu.58
Þegar Sigurbjörn leit um öxl áratugum eftir það skeið sem hér er til skoð-
unar tengdi hann lýðveldið og Skálholt saman á órofa hátt og taldi eflingu
annars viðreisn hins. Sjálfstæðisbaráttan, þjóðvörnin og viðreisn Skálholts
voru í huga hans nátengd fyrirbæri.
Skálholtshugsjón Sigurbjörns Einarssonar og þar með kirkjulegt
uppbyggingarstarf hans að öðru leyti var frá upphafi borið uppi af þjóð-
ernislegum söguskilningi og andúð á erlendri yfirdrottnan. Gætti þar
sömu áherslna og í starfi Þjóðvarnarfélagsins. Endurreisnarhugmyndir
Sigurbjörns voru þó ekki aðeins þjóðlegar og sögulegar heldur voru þær
og guðfræðilegar og trúarlegar. Það kemur m.a. sterkt fram í því að hann
taldi uppbyggingu Skálholts verða bæði þjóðinni og kirkjunni til bless-
unar þar sem ekki væri aðeins létt smán af sögufrægum stað heldur yrði
„heilagri trú“ skapað þar „hollt og sterkt vígi“. Sigurbjörn hvatti í raun til
endurreisnar „Skálholts hins helga“.59
Hér hefur verið sýnt fram á hvernig þjóðvarnarhreyfingin leitaði á vit
menningar og sögulegrar arfleifðar okkar í varðstöðu sinni um nýfengið
sjálfstæði landsins og hið nýstofnaða lýðveldi á viðsjárverðum tímum um
miðbik 20. aldar. Sú vakning sem Þjóðvarnarfélagið beitti sér fyrir varð þó
ekki að varanlegu afli í þjóðlífinu. Í upphafi 6. áratugarins hætti það starfi
sínu þótt Þjóðvarnarflokkurinn héldi uppi merki þess þar til á fyrstu árum
7. áratugarins. Þá var þjóðernishyggja lengi sterk og útbreidd meðal sósíal-
ista hér á landi. Gætir hennar raunar enn á margháttaðan máta í almennri
samfélagsumræðu. Má þar m.a. nefna deilur um hugsanlega inngöngu
okkar í ESB. Innan þjóðkirkjunnar er þjóðernisleg söguhyggja einnig
sterk allt til þessa.60 Vekur raunar athygli að í umræðum um áframhaldandi
57 Sama rit, bls. 53–55, 80.
58 Sigurður A. Magnússon, Sigurbjörn biskup: ævi og starf, Reykjavík: Setberg, 1988,
bls. 253.
59 Hjalti Hugason, „„Nýtt“ og „heilagt“ Skálholt“, bls. 64–70.
60 Hjalti Hugason, „Söguleg framtíðarsýn kirkjunnar“, Kirkjuritið 63/1997 [2. sérrit],
bls. 59–64; Íslensk bókmenntasaga, 4. bindi, bls. 433–434.
KIRKJA Í KRÍSU