Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 28
28
tengsl ríkis og þjóðkirkju í framtíðinni beita ýmsir framámenn kirkjunnar
ekki síst rökum sem vísa til hefðar og sögu. Ástæða er á hinn bóginn til að
ætla að tengslin muni í raun fremur velta á því hvert hlutverk þjóðkirkj-
unnar í samfélagi samtímans og í náinni framtíð verði talið og hvað hún
geti lagt til samfélagsins. Þannig virðist þjóðkirkjan enn í dag skilgreina sig
að verulegu leyti út frá þeirri söguhyggju sem ruddi sér svo mjög til rúms
innan hennar, m.a. fyrir áhrif frá Sigurbirni Einarssyni.
Það er athyglisvert að andóf þjóðvarnarmanna og sósíalista gegn inn-
göngu Íslands í NATO og þeim málum sem henni tengdust klauf þjóðina
í pólitísku tilliti eins og gleggst kom fram í átökunum 30. mars 1949 og
eftirstöðvum þeirra. Á hinn bóginn náði þjóðleg söguhyggja Sigurbjörns í
guðfræðilegum búningi undirtökunum í þjóðkirkjunni. Þar skiptir máli að
þrátt fyrir að Sigurbjörn væri lengi umdeildur í kirkjunni líkt og kom fram
við biskupskjör 1954 lauk pólitískum afskiptum hans tæpum áratug áður
en hann var kjörinn biskup.61 Virðist það tímabil hafa nægt til að lægja
öldurnar og skapa aukna sátt um hann og stefnu hans.
Gunnar Kristjánsson hefur fjallað nokkuð um þau straumhvörf sem
urðu innan íslensku þjóðkirkjunnar um miðbik liðinnar aldar og hér hefur
verið drepið á. Lýsti hann þeim svo að „íhaldssöm guðfræði“ hafi eflst,
„ný kirkjustefna“ sem kalla megi „kirkjuvaldsstefnu“ hafi rutt sér til rúms,
kirkjan hafi orðið „nánast ríki í ríkinu“ og stefna verið tekin til „aðgrein-
ingar“. Þá bendir hann og á aukin áhrif söguhyggjunnar. Rekur hann þessa
áherslubreytingu til Sigurbjörns Einarssonar.62 Sú aðgreining sem Gunnar
nefnir kann raunar að hafa virkað á tvo mismunandi vegu. Annars vegar
kann aukin áhersla á „arf kirkjunnar“, kirkjuleg tákn og helgisiði kirkjunn-
ar að hafa aðgreint hana eða einangrað frá þjóðinni sem ekki var lengur læs
á þessi tákn. Á hinn bóginn kann hin þjóðlega söguhyggja sem réð ferð-
inni í „nýju kirkjustefnunni“ að hafa valdið guðfræðilegri aðgreiningu sem
kom fram í því að þjóðkirkjan einangraðist frá helstu guðfræðistraumum
eftirstríðsáranna í Evrópu og Ameríku.63 Í þessu efni þarf þó og að huga að
hlut guðfræðideildar Háskólans (nú guðfræði- og trúarbragðafræðideild-
ar) í þessari einangrun. Til þess er þó ekki svigrúm í þessari grein.
61 Sigurður A. Magnússon, Sigurbjörn biskup, bls. 247–251, 279–282.
62 Gunnar Kristjánsson, „Kirkjan í keng“, bls. 73; Gunnar Kristjánsson, „Frjálslynd
guðfræði í nýju ljósi“, Frjálslynd guðfræði í nýju ljósi, 2010, bls. 13–27, hér bls.
19–20.
63 Sama rit, bls. 73–74.
HJALTI HUGASON