Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 41
41
4.2 Þjóðkirkjan sem framtíðarsýn
Sökum rómantískrar söguhyggju er þjóðkirkjan innhverf og úr takti við
samtímann, að mati Hjalta. Kirkjan þarfnast framtíðarsýnar, segir hann,
og hún þarf að skilgreina hlutverk sitt og sjálfmynd sína í samræmi við
hana.35 Hjalti dregur upp útópíska mynd af kirkju framtíðarinnar með hjálp
Opinberunar Jóhannesar. Þar stígur í lok tímanna hin nýja Jerúsalem niður
af himni eftir endursköpun alls (Opb 21.1–5a), tjaldbúð Guðs er meðal
manna og „dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né
kvöl er framar til. Hið fyrra er farið“ (Opb 21.4). Í millitíðinni er, að mati
Hjalta, hlutverk kirkjunnar að vera sýnilegt tákn Guðs í samfélaginu. Hún
er kölluð til „að leitast við að þerra tár, stilla harm, hugga vein og sefa kvöl
[…] í boðun sinni, sálgæslu, líknarþjónustu og ráðsmennsku sakramenta,
sem sé í öllu lífi sínu og starfi“.36 Af þessu megi ljóst vera að kirkjan eigi
samleið með þeim öflum sem vilja tryggja almenn réttindi og velferð.37
Þessa grunnhugmynd útfærir Hjalti nánar með því að greina veruleika
þjóðkirkjunnar.
Til þess notar Hjalti þrjú megingreiningarhugtök: ímynd, raunmynd og
sjálfsmynd. Fyrstu tvö eru sótt í greiningaraðferð sagnfræðinnar, þar sem
félags- og menningarsögulegt sjónarhorn er lagt til grundvallar. Hjalti
bætir við þriðja hugtakinu, sjálfsmynd, en það er sótt til sálfræðinnar.38
Hugtakið sjálfsmynd er innhverft og tekur mið af upplifun einstaklings-
ins af sjálfum sér og þeirri mynd sem hann setur saman í samhengi hennar.
Þegar hugtakið er notað um þjóðkirkjuna er um að ræða eigið mat kirkj-
unnar á veruleika sínum, köllun, sjálfsskilningi og sjálfsgreiningu. Eins og
gefur að skilja fæst normatív mynd kirkjunnar, eins og sú sem dregin er
upp í myndmáli ritningarinnar, játningum kirkjunnar og innan guðfræð-
innar, mikið við þennan þátt.
Hugtakið ímynd tengist félagslegum og stofnunarlegum veruleika kirkj-
unnar. Bygging hennar og staða í samfélaginu er viðfangsefnið. Mikilvægur
þáttur í ímynd þjóðkirkjunnar er það hvernig hlutverk hennar er skilgreint
í stjórnarskrá og lögum. Í þessu samhengi er kirkjan skilgreind í tengslum
35 Hjalti Hugason, „Söguleg framtíðarsýn kirkjunnar“, bls. 59.
36 Sama rit, bls. 60. Þessi texti er líka hryggjarstykkið í grein Hjalta, „Trúarbrögð og
trúarstofnanir í upphafi 21. aldar: Hlutverk og áskoranir“, óbirt.
37 Hjalti Hugason, „Þjóðkirkjan og trúfrelsi“, bls. 165–166.
38 Hjalti Hugason, „Ímynd á nýrri öld“, bls. 27–28; Hjalti Hugason, Frumkristni
og upphaf kirkju, bls. ix; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls.
11–12.
ÞJÓðKIRKJA OG KRÍSA