Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 43
43
Hjalti álítur að samstarfslíkanið tryggi eðlilegt flæði milli ímyndar, sjálfs-
myndar og raunmyndar, en lýðræðisleg uppbygging kirkjunnar sé forsenda
slíks flæðis. Bilið milli leikra og lærðra þurfi að brúa með virkri þátttöku
beggja í starfi kirkjunnar þar sem jafnvægi sé á milli valds og ábyrgðar.
Í þessu samhengi leggur Hjalti ríka áherslu á mikilvægi trúfrelsis og
greinir á milli jákvæðs og neikvæðs trúfrelsis. Það síðarnefnda feli í sér að
menn eigi að vera „óhultir fyrir trúarlegu áreiti sem þeir óska ekki eftir
sjálfir“.42 Af þeim sökum beri að halda öllu utan almannafæris sem líta
megi á sem trúartákn. Bönn séu hér meira áberandi en það sem leyft er.
Jákvætt trúfrelsi feli í sér að „allir mega rækta trú sína opinberlega, einir
eða í samfélagi við aðra, [og] boða hana þeim sem standa utan trúfélaga
þeirra“.43 Hér er það sem er leyft meira áberandi. Að mati Hjalta kemur
jákvætt trúfrelsi til móts við þá fjölhyggju og menningarfjölbreytni sem
þegar sé farin að móta íslenskt samfélag, en viðbrögð kirkjunnar við henni
hafi verið með þrenns konar hætti.44
Í fyrsta lagi hefur verið lögð áhersla á skerpingu. Í henni felst að sér-
leiki kristinnar trúar er dreginn fram og hún greind frá annarri trú. Hjalti
bendir á að áberandi sé í þessum viðbrögðum nauðsyn þess að skilgreina
stöðu stofnunar í samhengi játninga og kenninga kirkjunnar. En umfram
allt sé vísað til sameiginlegrar sögu kirkju og þjóðar til að tryggja stöðu
þjóðkirkjunnar. Í annan stað sé innhverfing áberandi, en þar sé sótt í trúar-
arfinn í leit að fjölbreytni fyrir tilbeiðslu og trúarlíf. Hún geti stundum
fengið á sig svip litúrgískrar fornleifafræði.45 Loks sé það samhljóman, en
þar sé tekið mið af samfélaginu með virkri þátttöku í orðræðunni. Kirkjan
leitist m.a. við að laga sig að sjálfræði einstaklinga í trúmálum. Frjálslynda
guðfræðin sé dæmi um slíka viðleitni og sömuleiðis samkirkjulega hreyf-
ingin, en innan hennar sé dregin fram alþjóðleg vídd kristninnar.
42 Hjalti Hugason, „Trúfrelsi í sögu og samtíð“, bls. 20. Hjalti hefur m.a. fjallað
ítarlega um bakgrunn, tilurð og ákvæði í lögum um trúfrelsi á Íslandi og dregur
þar fram mikilvægi jákvæðs trúfrelsis. Sjá Hjalta Hugason, „„Mér finnst þetta vera
hið sama sem að biðja um að sinni trú verði eytt …“: greining á alþingisumræðum
um trúfrelsi 1863 og 1865“, Ritröð Guðfræðistofnunar 22/2006, bls. 43–80; Hjalti
Hugason, „Trúfrelsi og kirkjuskipan frá þjóðfundi til stjórnarskrár“, Ritröð Guð-
fræðistofnunar 23/2006, bls. 91–130; Hjalti Hugason, „Þjóðkirkja og trúfrelsi:
saga og þróun trúmálabálks stjórnarskrárinnar 1874–1995“, Glíman 8/2012, bls.
157–193.
43 Hjalti Hugason, „Trúfrelsi í sögu og samtíð“, bls. 20.
44 Hjalti Hugason, „Trúarbrögð og trúarstofnanir í upphafi 21. aldar“, óbirt.
45 Sama rit, bls. 15–16.
ÞJÓðKIRKJA OG KRÍSA