Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Síða 44
44
Sýn sína á þjóðkirkjuna tengir Hjalti við þessa nálgun, jákvætt trúfrelsi,
samstarfslíkanið og samleið með grunngildum vestræns samfélags.46
Í hugmyndum Hjalta um þjóðkirkjuna eru bæði útópískar áherslur og
sterk skírskotun til þess veruleika sem hún á að móta. Hjalti stendur hér
í hefð frjálslyndu guðfræðinnar. Fulltrúar hennar nýttu sér m.a. siðfræði
Immanúels Kant og þá útópísku samfélagssýn sem hún fær hjá honum.47
Hana nýttu þeir til að túlka guðsríkisboðun Jesú í ljósi eigin samtíma. Þessi
sýn Kants hefur fengið verðugan arftaka í útópískri samfélagsgreiningu
Jürgens Habermas.48
Að mati Hjalta sinnir þjóðkirkjan best hlutverki sínu ef hún styðst við
samstarfslíkanið, byggir á jákvæðu trúfrelsi sem tryggt getur fjölbreytni
menningar og stuðlað að virkum samskiptum milli ólíkra hópa. Innviðir
kirkjunnar þurfi að mótast af innhverfingu þar sem persónulegt trúarlíf
fái notið sín og samhljóman varðandi gildismat og guðfræðilega túlkun
þess. Að mati þess er hér stýrir penna hættir Hjalta hins vegar til að leggja
skerpingu að jöfnu við dogmatisma og játningabundna trú. Það skýrir ef
til vill hvers vegna röksemdafærsla hans byggir jafn sjaldan á ritningunni
og Biblíufræðum og raun ber vitni. Það var hins vegar áberandi einkenni
á frjálslyndu guðfræðinni íslensku á 20. öld. Ef alls þessa er gætt tekst ef
til vill að skapa lifandi tengsl á milli ímyndar, sjálfsmyndar og raunmyndar
þjóðkirkjunnar.
4.3 Ánauð söguhyggjunnar
Að mati Hjalta mótast þjóðkirkjan frekar af „sterkri söguhyggju, en skil-
greindri framtíðarsýn“.49 Söguhyggjan komi vel fram í þeirri áráttu kirkj-
unnar að réttlæta tilvist sína með skírskotun til fornrar stöðu í íslensku
samfélagi. Fulltrúar þjóðkirkjunnar nýti sér aðferð þjóðernisstefnunnar og
skapi sér þá sögu sem þeir þurfi, sem sé mýtan um samleið kirkju og þjóðar
46 Hjalti Hugason, „Þjóðkirkjan og trúfrelsi“, bls. 165–166.
47 Immanuel Kant, Zum ewigen Frieden. Mit Einleitung und Anmerkungen, Bibli-
ografie und Register kritisch hrsg. von Heiner F. Klemme, Hamburg: Felix Meiner
Verlag, 1992.
48 „Habermas gerir ekki ráð fyrir að slíkar samræðuaðstæður verði nokkurn tíma
að raunveruleika en það er höfuðverkefni lýðræðislegs samfélags að leitast við að
skapa þær. Það er gert með því að tryggja betri leiðir fyrir borgarana til að móta
sameiginlegan ígrundaðan vilja sinn á opinberum vettvangi og vinna að því að sá
vilji hafi áhrif á pólitíska stefnumótun og stjórnsýslu.“ Vilhjálmur Árnason, Farsælt
líf, réttlátt samfélag: kenningar í siðfræði, Reykjavík: Heimskringla, 2008, bls. 349.
49 Hjalti Hugason, „Söguleg framtíðarsýn kirkjunnar“, bls. 61.
SIGURJÓN ÁRNI EYJÓLFSSON