Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 45
45
í 1000 ár. Í henni sé ekki gerður verulegur greinarmunur á birtingarmynd-
um kristninnar í gegnum aldirnar. Í raun sé litið svo á að sama þjóðkirkjan
sé enn við lýði nú og verið hefur um aldir.50 Gömlu biskupsstólarnir á
Hólum og í Skálholti skipti hér sköpum. Fornri frægð staðanna sé teflt
fram gegn þeirri niðurlægingu sem þeir og kristnin hafi ratað í. Þess vegna
hafi orðið að endurreisa staðina og gera þá að táknmynd endurreisnar
þjóðar og kirkju í samtímanum.51 Hjalti segir að í þessari viðleitni sé lítið
ígrundað hvaða stöðu þessir fornfrægu staðir hafi, nægi aðeins að huga að
fjarlægð frá þéttbýli, svo að eitthvað sé nefnt. Þessi veruleikafirring komi
vel fram í byggingu líkans af Auðunarstofu frá 14. öld sem þjóna eigi sem
skrifstofuhúsnæði fyrir vígslubiskup.52 Hið sama megi segja um endurreisn
Skálholts, sem hafi reynst kirkjunni þung fjárhagsbyrði. Þessar stofnanir
hafi fyrst og fremst þjónað sem guðfræði- og kirkjuleg tákn fyrir hug-
myndafræði íslenskrar þjóðernishyggju.53
Kennisetningin er skýr, að mati Hjalta: á Íslandi hefur verið þjóðkirkja
í þúsund ár. Það eitt réttlætir tilvist, stöðu og vægi hennar í samtímanum
um ókomna tíð.54 Hér líta menn hins vegar framhjá einangrun þjóðarinn-
ar, segir Hjalti. Hún valdi sérstöðu evangelísk-lútherskrar kirkju á Íslandi,
en hún hafi lítið þurft að skilgreina sig gagnvart öðrum kirkjudeildum
af þeim sökum. Hún eigi lítið skylt við þá rómantísku fortíðarþrá sem
einkenni sjálfsmynd þjóðkirkjunnar. Á þennan hátt sé munurinn á ímynd,
sjálfsmynd og raunmynd máður út. Sé sagan aftur á móti skoðuð út frá
„húmanískri, sögulegri afstæðishyggju“, þá komi í ljós margslungnari og
raunsannari mynd.55
50 „Á Íslandi hátti svo til að hér hafi lengst af búið ein þjóð og að meðal hennar hafi
aðeins verið ein kirkja við lýði hverju sinni. Þessar aðstæður eru síðar taldar hafa
ráðið úrslitum um þá miklu samstöðu og samheldni sem einkennt hefur Íslendinga
allt fram á okkar dag.“ Hjalti Hugason, „Söguleg framtíðarsýn kirkjunnar“, bls.
61.
51 Hjalti Hugason, „Nýtt“ og „heilagt“ Skálholt: hugmyndir Sigurbjörns Einarssonar
um endurreisn staðarins eins og þær endurspeglast í Víðförla 1947–1954“, Ritröð
Guðfræðistofnunar 30/2010 [1], bls. 51–84, hér bls. 52–53.
52 Hjalti Hugason, „Söguleg framtíðarsýn kirkjunnar“, bls. 61.
53 Hjalti Hugason, „„Nýtt“ og „heilagt“ Skálholt“, bls. 55–57, 68, 80.
54 Hjalti Hugason, „Ímynd á nýrri öld“, bls. 46.
55 Samkvæmt Hjalta er sú notkun þjóðkirkjuhugtaksins, sem hér kemur fram, á
sífelldu flökti, þ.e.a.s. milli sjálfsmyndar, ímyndar og raunmyndar þjóðkirkjunnar.
Stundum má segja að raunmyndinni sé jafnvel hafnað eða allavega mismunur
myndanna ekki virtur. Hjalti Hugason, „Ímynd á nýrri öld“, bls. 47.
ÞJÓðKIRKJA OG KRÍSA