Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Síða 50
50
hana.71 Frjálslynd guðfræði leitist við að eiga gott samband við nútíma-
hugsun í vísindum, menntun og menningu. Hún kalli fram á sjónarsviðið
þjóðkirkju „með lágan þröskuld og víðar dyr, henni er trú og trúarreynsla
einstaklingsins ofar í huga en játningar og helgisiðir“.72 Sjálfsforræði ein-
staklingsins sé viðurkennt og varðveitt. Ekki sé litið á hann sem peð í stórri
stofnun, heldur snúist málið um hann sjálfan sem einstakling, um per-
sónulega trúarafstöðu og trúariðkun.
Gunnar telur að miðstýrð kirkja með sterkt biskupsembætti samræmist
illa þessari sýn á þjóðkirkjuna.73 Þróunin innan kirkjunnar hafi undanfarna
áratugi verið andstæð skilningi frjálslyndu guðfræðinnar. Hún komi hvað
skýrast fram í embættisskilningi presta og vægi orðsins í orðræðu kirkj-
unnar. Eins og áður segir hefur Gunnar lagt sig fram um að miðla þýskri
guðfræðiumræðu um þetta sama efni. Þetta tekst honum sérstaklega vel í
greininni „Hin nýja prestastétt“ þar sem hann fjallar um bók Friedrichs
Wilhelms Grafs um sjö lesti kirkjunnar.74 Greining Grafs kallast á við
grunnhugmyndir Gunnars sjálfs um hlutverk kirkjunnar í samtímanum.
Sú krísa eða kreppa sem herjar á íslensku þjóðkirkjuna á því margt sam-
merkt með þeirri glímu sem þýska kirkjan á í. Ritdóminn má því vel lesa
sem greiningu Gunnars á sama vanda.
Vandi kirkjunnar ræðst af prestum þjóðkirkjunnar. Það er sameiginleg
afstaða Grafs og Gunnars Kristjánssonar. Spurningin snýst um hvað kirkj-
an „sé sjálf, hver guðfræði hennar sé, hver málstaður hennar sé“.75 Hún þurfi
að gera upp við sjö lesti þar sem allt stendur eða fellur með fyrsta atriðinu.
Þessir lestir séu málleysi, menntunarfirring, móralismi, lýðræðisgleymska,
sjálfsdýrkun, framtíðarhöfnun og forræðishyggja.76 Evangelísk-lúthersk
kirkja sé kirkja orðsins og hafi sem slík haft áhrif á menningarumhverfi
sitt í gegnum aldirnar. Í siðbótinni hafi verið horfið frá sakramentis-myst-
ískri kirkjusýn og leitað inn á vettvang orðsins og vitsmunalegrar orðræðu.
71 Gunnar Kristjánsson, „Frjálslynd guðfræðihefð“, bls. 31–33; Gunnar Kristjánsson,
„Samtal í fjöru“, bls. 118–121; Gunnar Kristjánsson, „Frjálslynd guðfræði í nýju
ljósi“, bls. 15–17.
72 Gunnar Kristjánsson, „Trúmaður á tímamótum“.
73 Gunnar Kristjánsson, „Á grýttri leið til lýðræðis“, Glíman 6/2009, bls. 191–220,
hér bls. 208–211.
74 Greinin er umfjöllun um bók Friedrichs Wilhelms Graf, Kirchendämmerung,
sem Gunnar tengir við íslenskar aðstæður. Sjá Gunnar Kristjánsson, „Hin nýja
prestastétt“, Glíman 8/2012, bls. 217–229.
75 Gunnar Kristjánsson, „Hin nýja prestastétt“, bls. 219.
76 Sama rit, bls. 219–220.
SIGURJÓN ÁRNI EYJÓLFSSON