Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 55
55
Í grein frá árinu 2006 sem nefnist „Krísa á kristniboðsakrinum. Lútherskar
kirkjur kljást við hjónabandið“, skrifaði Kristín Þórunn Tómasdóttir
hérað s prestur um þá krísu sem lútherska kirkjan stóð frammi fyrir á þeim
tíma og tengdist kröfu samkynhneigðs fólks um að fá að ganga í hjónaband
líkt og gagnkynhneigt fólk. Kristín Þórunn beinir kastljósinu að þeirri krísu
sem lúthersku kirkjudeildirnar stóðu frammi fyrir á þessum tíma gagnvart
íhaldssamari systurkirkjum, einkum kirkjum í Afríku og Austur-Evrópu, en
þær hótuðu þegar verst lét að slíta öll tengsl við hinar „róttæku“ lúthersku
kirkjur út af þessu máli.1 Þegar greinin var skrifuð var löggjöf um borg-
aralegt hjónaband samkynhneigðra ekki til orðin á Norðurlöndunum,2 en
staðfest samvist samkynhneigðra hafði hins vegar verið við lýði í flestum
þeirra frá því á síðasta áratug tuttugustu aldar.3 Ágreiningsefni hinna lúth-
ersku systurkirkna snerist um tengsl kynhneigðar, kynferðis og kristins
1 Kristín Þórunn Tómasdóttir, „Krísa á kristniboðsakrinum: Lútherskar kirkjur kljást
við hjónabandið“, febrúar 2006, sótt 16. apríl 2012 af http://tru.is/pistlar/2006/02/
krisa-a-kristnibodsakrinum.
2 Norðmenn urðu fyrstir þjóða á Norðurlöndunum sem lögleiddi borgaralegt hjóna-
band einstaklinga af sama kyni árið 2009, en Svíar fylgdu í fótspor þeirra síðar
sama ár. Ísland varð þriðja norræna ríkið sem lögleiddi hjónaband einstaklinga af
sama kyni árið 2010. Síðasta ríkið á norrænum vettvangi sem lögleiddi hjónaband
samkynhneigðra er Danmörk sem gerði það fyrri hluta árs 2012. Auk þessara
landa er borgaralegt hjónaband milli einstaklinga af sama kyni löglegt í Argentínu
(2010), Belgíu (2003), Hollandi (2001), Kanada (2005), Portúgal (2010), Suður-
Afríku (2006) og á Spáni (2005). Þá hafa sex ríki Bandaríkja Norður-Ameríku leyft
hjónaband samkynhneigðra, eitt ríki í Brasilíu og einnig Mexíkóborg.
3 Á tólf ára tímabili lögleiddu öll Norðurlöndin staðfesta samvist: Danmörk árið
1989, Noregur 1993, Svíþjóð 1995, Ísland 1996 og Finnland 2001.
Sólveig Anna Bóasdóttir
Kynhneigð í krísu
Kirkjan, hinsegin fólk og mannréttindi
Ritið 2/2012, bls. 55–76