Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 56
56
hjónabands. Þessi tengsl geta aðeins verið á einn veg samkvæmt hefð-
bundnum kristnum skilningi: Tveir gagnkynhneigðir einstaklingar, karl-
kyns og kvenkyns, geta gengið í kristið hjónaband. Sænska kirkjan var í
fararbroddi norrænu, lúthersku kirknanna á samkirkjulegum vettvangi til
að ganga gegn hefðbundnum kristnum hjónabandsskilningi og jafnframt
fyrst til að samþykkja kirkjulega hjónavígslu einstaklinga af sama kyni
(2009). Íslenska þjóðkirkjan valdi sams konar afstöðu ári síðar og sú danska
slóst í hópinn 2012. Norsku og finnsku þjóðkirkjurnar hafa ekki leitt þetta
mál til lykta enn. Krísan, sem Kristín Þórunn vísar til í fyrrnefndri grein,
hefur því að vissu leyti verið leyst hér á landi en hið sama er ekki hægt að
segja um flestar kristnar kirkjur í heiminum, hvaða kirkjudeild sem þær til-
heyra. Enn ríkir djúpur ágreiningur meðal og innan kirkna um afstöðu til
hjónabands samkynhneigðra enda hefur kynlíf milli einstaklinga af sama
kyni verið fordæmt sem synd innan kristni um aldir.
Í þessari grein er litið svo á að umrætt ágreiningsefni, sem víða má finna
innan kristinnar kirkju,4 tengist náið viðhorfi sem ég vel að kalla gagnkyn-
hneigðarhyggju (e. heteronormativity). Gagnkynhneigðarhyggju má skilja
sem það viðhorf að gagnkynhneigð sé hin eina eðlilega kynhneigð fólks og
jafnframt undirstaða eðlilegrar kynvitundar (e. gender identity) og tengsla
kynjanna.5 Í vestrænum, karllægum hugmyndaheimi þar sem gagnkyn-
hneigðarhyggja er ríkjandi viðmið er öllum einstaklingum skipt í tvo hópa
á grundvelli kynferðis. Frá fæðingu eru allir einstaklingar flokkaðir ann-
aðhvort karlkyns eða kvenkyns og gagnkynhneigð er talin hin eðlilega og
heilbrigða kynhneigð. Samkynhneigð er þekkt undantekning frá þessari
reglu. Samkvæmt viðhorfi gagnkynhneigðarhyggju er hún afbrigðileg sem
4 Kirkjuhugtakið er notað í víðri merkingu í þessari grein og vísa ég til greina guð-
fræðinganna Hjalta Hugasonar og Sigurjóns Árna Eyjólfssonar í þessu hefti þar
sem þeir skilgreina það. Í sinni víðtækustu mynd vísar kirkjan til menningarlegrar,
samfélagslegar og trúarlegrar stofnunar í alþjóðlegu samhengi en í sértækari merk-
ingu er vísað til kirkjudeilda og jafnvel einstakra kirkna, líkt og gert er í upphafi
greinarinnar. Markmið greinarinnar er ekki að beina sjónum sérstaklega að íslensku
þjóðkirkjunni en tekin eru dæmi um gagnkynhneigðarhyggju innan hennar. Af
samhenginu má ráða hvort skírskotað er til alþjóðakirkjunnar, kirkjudeildar eða
sérstakrar kirkju eins og t.d. íslensku þjóðkirkjunnar.
5 Sjá tilvísun til hugtaksins gagnkynhneigðarhyggja (e. heteronormativity) og útskýr-
inga á því í skýrslu Lottu Samelius og Eriks Wågberg, Sexual Orientation and Gen-
der Identity: Issues in Development, 2005, bls. 15–16, sótt 21. apríl 2012 af http://
www.sida.se/Global/Nyheter/SIDA4948en_Sexual_Orientation_web%5B1%5D.
pdf. Sá skilningur sem hér er settur fram byggist á þessari heimild en þar er einnig
að finna myndina sem lýst er í textanum.
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR