Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Page 66
66
skoða söguleg, fordómafull viðhorf í framhaldi þeirrar skoðunar.32 Verkefni
kirkjunnar að mínu mati er að horfast í augu við gagnkynhneigðarhyggj-
una, takast á við hana, gagnrýna hana og sjá kosti þess að losna undan
þjökun hennar. Verkefnið gengur ekki út á að endurraða í flokka eða færa
hópa á milli í niðurnjörvuðu kerfi gagnkynhneigðarhyggjunnar, svo vísað
sé enn á ný til myndar Gayle Rubin, heldur ráðast að þeirri grundvallar-
hugsun sem flokkunin og aðgreiningin byggist á. Myndina þarf hreinlega
að þurrka út og síðan taka til við að endurskoða kristinn skilning á kynlífi
og kynverund manneskjunnar með því að rýna í hugmyndir menningar-
innar um kynhneigð og kynvitund. Í þessari vinnu þarf að vinna með fleiri
heimildir en Biblíuna og kristna hefð og tileinka sér af krafti þekkingu á
kynferðislegri fjölbreytni, byggða á rannsóknum og reynslu. Ótal rann-
sóknir og skýrslur á vegum Sameinuðu þjóðanna, ýmissa samtaka á þeirra
vegum og mannréttindasamtaka víða um heim liggja fyrir um þetta efni
þar sem finna má hvatningu til ríkja, stofnana og samtaka um að breyta
aðstæðum hinsegin fólks og minnihlutahópa sem samfélög víðast hvar um
heiminn hafa fordæmt og útskúfað vegna kynhneigðar og kynferðislegrar
breytni. Í síðari hluta þessarar greinar mun verða vísað í efni úr þessum
ranni með það fyrir augum að sýna mikilvægi þess fyrir kirkjuna, í þrengri
og víðari skilningi, sem stuðlað gæti að því að hún yrði betur í stakk búin
til að vinna gegn fordómum sem tengjast gagnkynhneigðarhyggju.
Kynverund og mannréttindi
Á samráðsfundi sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna
stóð fyrir árið 1983 var sett fram fyrsta heildstæða skilgreiningin á hugtak-
inu kynverund en þar segir:
Kynverund er óaðskiljanlegur hluti persónuleika sérhverrar mann-
eskju: karlmanns, konu og barns. Hún er grundvallarþörf á sviði
mennskunnar og sem slík verður hún ekki greind frá öðrum sviðum
lífsins. Kynverund er ekki það sama og kynmök, hún fjallar ekki ein-
vörðungu um kynferðislega fullnægju, hún er ekki heildarútkoma
32 Hér er því ekki haldið fram að öll vestræn og kristin samfélög á öllum tímum hafi
haft þennan skilning, hvað þá haldið hann í heiðri. Miðaldasagnfræðingurinn
John Boswell hefur fært rök fyrir hinu gagnstæða og bendir á dæmi frá rómversk
kaþólsku kirkjunni og rétttrúnaðarkirkjunni á miðöldum þar sem kirkjan blessaði
sambönd tveggja einstaklinga af sama kyni, John Boswell, Same-Sex Unions in Pre-
modern Europe, New York: Vintage books, 1995.
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR