Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 68
68
Pinar Ilkkaracan og Susie Jolly sem vinna við rannsóknir á tengslum
þróunarmála og kynferðis halda því fram að í kynverundarréttindahugtak-
inu felist ný nálgun.36 Í fyrsta lagi séu kynverundarréttindi í eðli sínu mann-
réttindi, þ.e. þau gildi fyrir alla, bæði minnihlutahópa og meirihlutahópa.
Í stað þess að tengja þau eingöngu við ákveðna hópa og tala t.d. um kynver-
undarréttindi kvenna, kynverundarréttindi samkynhneigðra og svo mætti
áfram telja, eigi að líta á þau sem ófrávíkjanleg mannréttindi, án nokkurrar
aðgreiningar á grundvelli kynferðis, kynvitundar eða kynhneigðar. Inntak
kynverundarréttindanna beinist því ekki að ákveðnum hópum, sjálfsmynd
þeirra og kynvitund, heldur að undirliggjandi samfélagslegum formgerð-
um alls kyns misréttis sem tengja megi kynverund. Vandamálið sem horfast
þurfi í augu við varðandi kynverund sé pólitískt, það snúist um kúgun og
vald, álykta þær Ilkkaracan og Jolly, og því sé nauðsynlegt að beina sjónum
að formgerðum kúgunar og valds í samfélagi og menningu og koma auga
á hvernig það tengist kynverund. Annað atriði sem þær álíta mikilvægt
varðandi hugtakið kynverundarréttindi er að með því sé gengið lengra en
að halda fram réttinum til að lifa frjáls undan kynlífskúgun eða ofbeldi.
Mikilvægt sé að forðast að einblína á t.d. konur sérstaklega og ýmsa aðra
hópa sem stöðug fórnarlömb kynlífsofbeldis. Konur séu gerendur sem
geti tekið ábyrgð á eigin lífi, árétta þær, og mikilvægt að virða sjálfræði
þeirra í hvívetna. Þriðja atriðið sem Ilkkaracan og Jolly ítreka snýst um að
kynheilsa, þótt afar mikilvæg sé, sé aðeins hluti kynverundar manneskj-
unnar og einmitt það komi skýrt fram í inntaki kynverundarréttindanna.
Nálgast þurfi alla kynlífsumræðu með jákvæðari hætti en nú sé raunin og
ekki dvelja aðeins við hinar neikvæðu afleiðingar kynlífs, s.s. kynsjúkdóma,
nauðganir, ótímabærar þunganir o.s.frv. Niðurstaða Ilkkaracan og Jolly
er að kjarni kynverundarréttinda felist í sjálfræði og frelsi fólks og rétt-
inum til að sækjast eftir þeim kynlífssamböndum sem veita einstaklingum
kynferðislega ánægju.37 Hvort tveggja, áherslan á mikilvægi kynverundar
fyrir líf manneskjunnar og tengslin milli kynverundar og mannréttinda,
ítreka þær, varðar samfélagslegt réttlæti til handa þeim sem er mismunað á
ýmsa vegu eða eru jafnvel ósýnilegir vegna kynverundar sinnar. Með kyn-
verundarréttindunum sé unnið markvisst að því að skapa rými fyrir fólk
36 Pinar Ilkkaracan og Susie Jolly, Gender and Sexuality. Overview Report, 2007, bls.
10, sótt 9. maí 2012 af http://www.bridge.ids.ac.uk/reports/CEP-Sexuality-OR.
pdf.
37 Sama rit, bls. 22.
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR