Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Síða 78
78
málið á einn eða annan hátt um valdið í samfélaginu, um það hvernig
samfélagið er uppbyggt, skilgreint og réttlætt.
Hin evangelísk-lútherska kirkja er sjálf afurð stórpólitískrar kirkjukrísu
sem barst til Íslands frá Mið-Evrópu, nánar tiltekið frá Wittenberg og
Kaupmannhöfn á fyrri hluta 16. aldar. Klippt var á tengsl íslensku kirkj-
unnar við valdamiðstöð miðaldakirkjunnar í Róm og í staðinn var hún
sett undir Danakonung og það miðstjórnarvald sem þá var að myndast í
Kaupmannahöfn, höfuðborg ríkisins. Rótina að þessu má rekja til upp-
reisnar munksins og guðfræðiprófessorsins í Wittenberg, Marteins Lúthers
sem hafði sannfærst um að ríkjandi trúarstofnun væri andstæð þeirri frels-
unarleið sem boðskapur Jesú Krists um náð Guðs opnaði mönnunum.
Biblíurannsóknir hans og eigin trúarbarátta höfðu leitt til þeirrar sannfær-
ingar að kirkjan þyrfti endurnýjunar við og það gaf honum hugrekki og
þrek til að bjóða sameinuðu valdi páfa og keisara byrginn á ríkisþinginu
í Worms árið 1521. Hann var dæmdur villutrúarmaður og þess krafist að
hann drægi gagnrýni sína til baka en hann vitnaði til rannsókna sinna á
Biblíunni og samvisku sinnar gagnvart Guði og stóð á sínu: „Hér stend ég.
Ég get ekki annað“3 – stofnunin var að víkja, andinn réð för.
Framrás þeirrar hreyfingar sem Lúther kom af stað byggði á stuðningi
fursta hinna ýmsu ríkja og sjálfstæðra borgarstjórna.4 Það valdakerfi sem
siðbreytingin lagði grunninn að náði síðan að festast í sessi með einveldi
konungs sem hafði það í för með sér að kirkjan varð nánast hluti af ríkis-
valdinu en vandséð er að það hafi verið upphafleg hugmynd siðbótarfröm-
uðarins. Kirkjan sem stofnun sá um menningarlegt og félagslegt taum-
hald (e. social control) og réttlætingu (e. legitimation) hins nýja valdakerfis.
Að sama skapi tryggði konungsvaldið þessari kirkju einokunaraðstöðu á
trúarlega sviðinu. Þetta var sá rammi sem ríkti í kirkjumálum fram undir
aldamótin 1900 – en þá hefst nýr krísutími í kirkjunni á nýjum forsendum.
Frelsishugmyndir ná að skjóta rótum í íslensku kirkjunni og ný guðfræði
kemur fram undir kjörorðum frjálslyndis og þjóðlegra gilda.
3 Roland Bainton, Marteinn Lúther, þýðing Guðmundur Óli Ólafsson, Reykjavík:
Bókaútgáfan Salt, 1984, bls. 150.
4 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls.
18–24.
PÉTUR PÉTURSSON