Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Qupperneq 81
81
í pólitík né hagsmunabaráttu. Grónar hefðir, einhæfni samfélagsins og
lega Íslands langt frá miðstöð ríkisvaldsins hefur eflaust átt þátt í því að
þessi afhelgun og aðgreining varð ekki eins róttæk og í öðrum löndum
mótmælenda.14 A.m.k. tók þessi þróun lengri tíma á Íslandi en annars
staðar þar sem kirkjur mótmælenda voru einráðar. Biskuparnir, á hinum
fornu stólum í Skálholti og á Hólum, höfðu áfram töluverð völd og áhrif
en þau fóru þverrandi eftir því sem konungsvaldið styrktist og stjórnskipan
einveldisins festist í sessi. Eins og fjallað verður um hér á eftir var ekki um
aðgreiningu hins trúarlega og veraldlega að ræða þegar að konungsvaldinu
sjálfu kom enda var ásókn konungs í meiri völd einn af helstu hvötum sið-
breytingarinnar í Danmörku sem og á Íslandi.15
Kenning um kirkjukreppur
Kirkjusagan, og reyndar trúarbragðasagan einnig, sýnir inngróna spennu
milli trúarlífs sem byggir á persónulegri upplifun og reynslu og trúar-
stofnana. Þar sem trúin er félagslegt og menningarlegt fyrirbæri er hún
háð festu og stofnanavæðingu (e. institutionalization) en um leið eru hefðir,
formlegt skipulag og fyrirfram gefin hlutverkatengsl iðulega skilgreind
sem hindrun á vegi trúarandans sem blæs þangað sem hann sjálfur vill.
Max Weber greinir þrenns konar áhrifavald (e. authority) í mannlegum
samskiptum sem hann segir vera kjörmyndir (e. ideal types) sem sjaldan
birtist í sínu hreinræktaða formi heldur sem einkenni sem séu meira eða
minna áberandi í hverju tilfelli fyrir sig. Í fyrsta lagi talar hann um vald
sem skírskotar til skynsemi og laga (e. rational legal), í öðru lagi vald sem
skírskotar til hefða (e. traditional) og í þriðja lagi náðarvald (e. charisma)
þar sem skírskotað er til persónulegra hæfileika og einkenna leiðtoga sem
skapa tiltrú fylgjenda.16 Nýir straumar í trúmálum og stjórnmálum ein-
kennast oft af því að leiðtogar þeirra búa yfir miklu náðarvaldi og í því
getur ýmist verið fólgin nýsköpun eða að nýju lífi er blásið í gömul form,
tákn, og ritúöl. Dæmigert náðarvald stenst þó sjaldan tímans tönn og örlög
þess verða iðulega þau að stofnanavæðast (e. routinization of charisma), þ.e.
að hefðin eða formlegt skipulag tekur yfirhöndina.17 Oft má greina áherslu
14 Hjalti Hugason, „Kristnir trúarhættir“, Íslensk þjóðmenning V, ritstj. Frosti F.
Jóhannesson, Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, bls. 208–229.
15 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 18–24.
16 Max Weber, Ekonomi och samhälle I, Lund: Argos, 1983, bls. 146.
17 Scott Appelrouth og Laura Desfor Edles, Classical and Contemporary Sociological
Theory, Los Angeles: Pine Forge Press, 2008, bls. 181–190.
STOFNUN EðA ANDI